Fara á efnissvæði
10. september 2022

Ungt fólk og lýðræði: Saman hægt að lyfta grettistaki

„Þótt mannkynið hafi tekið risastökk í tækniframförum í COVID-faraldrinum þá sýndi hann okkur líka að við áorkum minna ein. Ekkert verður til af sjálfu sér og flest allt verður til með samstarfi og samvinnu,‟ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ. Hann setti ungmennaráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði sem fram fer í húsnæði gamla Héraðsskólans á Laugarvatni um helgina. Nokkrir tugir ungs fólks frá 16 – 26 ára af öllu landinu er samankominn á ráðstefnunni, sem ber yfirskriftina: Láttu drauminn rætast! Embla Líf Hallsdóttir, formaður Ungmennaráðsins, tók við af Jóhanni og bauð þátttakendur velkomna.

Jóhanni var tíðrætt um árangurinn sem fólk getur náð þegar það snýr bökum saman. Þá sé hægt að lyfta grettistaki.

Jóhann sagði: „Ungmennafélag Íslands – UMFÍ – er meira en félag fyrir ungt fólk. UMFÍ býr til umgjörð. Við sköpum aðstæður fyrir sem flesta til að vera með og taka þátt í félagsstarfi á eigin forsendum. Þessi ráðstefna er hluti af þeirri umgjörð. Nú erum við hér saman komin að ræða um umgjörðina, regluverkið sem við ætlum að byggja á til framtíðar,‟ sagði hann og tæpti á að á ráðstefnunni muni þátttakendur læra aðferðir til að öðlast meira sjálfsöryggi, læra að hlusta á skoðanir annarra, hvernig bregðast eigi við fordómum, unnið gegn einelti og unnið að því að gera samfélagið opnara og betra.

„Í gegnum samræður og samvinnu getum við gert gott samfélag enn betra,‟ sagði hann.

 

Leiðir til að styrkja sjálfsmynd sína

Ungmennaráðstefnan hefur verið haldin árlega frá árinu 2009 ef frá er talið síðasta ár en þá var ráðstefnunni frestað vegna faraldursins. Ráðstefnan hefur hefur því fest sig í sessi á meðal mikilvægustu viðburða fyrir ungt fólk á Íslandi. Á ráðstefnunni er lögð áhersla á að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks í leik og starfi og boðið upp á leiðir fyrir þátttakendur svo þeir geti styrkt sjálfsmynd sína og tekið upplýstar ákvarðanir um eigið líf og lífsstíl. Aðalstyrktaraðili ráðstefnunnar eru Erasmus+

Markmið viðburðarins er gleði og þátttaka. Þátttakendur hljóta ýmis verkfæri og þjálfun til þess að hafa aukin áhrif á sitt eigið líf sem og sitt nær samfélag.  

Dagskráin er með fjölbreyttu sniði. Hellings hópefli og samvera. Kynningar með mögnuðum fróðleik. Uppörvandi og hvetjandi málstofur, samtal við ráðamenn, varðeldur og önnur skemmtilegheit

 

Ávarp Jóhanns í heild sinni

Komið þið sæl.

Ég býð ykkur velkomin á ráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði.

Það er afar ánægjulegt að sjá ykkur hér. Því þetta er mikilvæg ráðstefna. Hún endurspeglar svo margt og lyftir svo mörgu á stall, sem er ekki sjálfsagt í samfélaginu. Jafnvel í heiminum öllum. Hér leggjum við áherslu á lýðræðislega þátttöku ykkar og allir fá tækifæri til að tjá sig.

Ráðstefnur eins og þessar eru mikilvægar, ekki aðeins fyrir lýðræðisþáttinn heldur einnig fyrir opin samskipti og samveru.

Þótt mannkynið hafi tekið risastökk í tækniframförum í COVID-faraldrinum þá sýndi hann okkur líka að við áorkum minna ein. Ekkert verður til af sjálfu sér og flest allt verður til með samstarfi og samvinnu. Mesti árangurinn næst þegar við snúum bökum saman, þá getum við lyft grettistaki.

Ungmennafélag Íslands – UMFÍ – er meira en félag fyrir ungt fólk. UMFÍ býr til umgjörð. Við sköpum aðstæður fyrir sem flesta til að vera með og taka þátt í félagsstarfi á eigin forsendum. Þessi ráðstefna er hluti af þeirri umgjörð.

Nú erum við hér saman komin að ræða um umgjörðina, regluverkið sem við ætlum að byggja á til framtíðar, hvað er gott, hvað getum við gert betur – en fyrst og fremst: Hvernig getum við gert lifið betra. Látið drauma okkar rætast?

Í dag og á morgun munum við læra aðferðir til að bæta líðan okkar, öðlast meira sjálfsöryggi, læra að hlusta á skoðanir annarra, hvernig við getum bætt framkomu okkar, lært að bregðast við fordómum, unnið gegn einelti og unnið að því að gera samfélagið opnara og betra.

En umfram allt. Hér getum við hitt aðra og rætt málin. Átt í samstarfi og unnið saman. Ef allt fer samkvæmt áætlun verður eitthvað til. Eitthvað nýtt til að byggja á.

Í gegnum samræður og samvinnu getum við gert gott samfélag enn betra.