Fara á efnissvæði
08. janúar 2020

UMFÍ og ÍBR hlutu styrk frá Erasmus+

Verkefni UMFÍ og ÍBR voru á meðal þeirra sextán verkefna sem hlutu styrk úr október umsóknarfresti 2019 hjá Erasmus + áætluninni.

UMFÍ hlaut styrk fyrir ungmennaráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði sem fram fer 1. – 3. apríl næstkomandi. Yfirskrift ráðstefnunnar er Lýðræðisleg áhrif, hvar, hvenær og hvernig hefur ungt fólk áhrif? Ráðstefnan er ætluð ungmennum á aldrinum 16 – 25 alls staðar af landinu. Markmið viðburðarins er að valdefla ungmenni og gefa þeim tækifæri til þess að eiga samtal við ráðamenn. 

ÍBR hlaut styrk fyrir ferð með forsvarsmönnum íþróttahreyfingarinnar í Reykjavík til Danmerkur. Tilgangur ferðarinnar er að kynna sér rekstur og byggingu íþróttamannvirkja félagasamtaka, hvaða leið Danir hafa farið í að auka samvinnu milli félaga og íþróttahéraða og innleiðing rafíþrótta hjá íþróttafélögum.

Ragnheiður Sigurðardóttir, landsfulltrúi UMFÍ tók á móti styrknum fyrir hönd Ungmennaráð UMFÍ sem hefur veg og vanda við skipulag og undirbúning ráðstefnunnar. Jón Þór Ólason, framkvæmdastjóri Ármanns tók á móti styrknum fyrir hönd ÍBR. Á myndinni er einnig Anna R. Möller frá Landsskrifstofu Erasmus+ og Ágúst Hjörtur Ingþórsson, sviðsstjóri mennta- og menningarsviðs.

Samtals var úthlutað alls um 60 milljónum króna. UMFÍ hvetur sambandsaðila til þess að kynna sér þau tækifæri sem bjóðast innan Erasmus+ áætlunarinnar.

Upplýsingar um umsóknarfresti, námskeið og fleira er að sjá heimasíðunni www.rannis.is

Allt sem þig langar til að vita um ungmennaráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði.