Fara á efnissvæði
18. júní 2024

Um 400 tóku þátt í landsmóti

Telja má að um 400 einstaklingar auk aðstandenda hafi tekið þátt í Landsmóti UMFÍ 50+ sem fram fór í Vogum á Vatnsleysuströnd dagana 6. – 9. júní í samstarfi við Þrótt Vogum og sveitarfélagið Voga. Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar, segir vel hafa tekist til og greinilegt að mótið sé búið að festa sig í sess hjá mörgum þátttakendum, sem sjái það sem fastan punkt í sumrinu. 

Þátttakendur 50 ára og eldri skráðu sig í keppni í fjölmörgum greinum mótsins. Þátttakendur yngri en 50 ára þurftu ekki að skrá sig eða gerðu það á öðrum stað. Opið var líka í fjölmargar greinar mótsins.

Blaðamaður Víkurfrétta náði tali af Marteini eftir mótahelgina og tekur fram að Marteinn hafi varla verið kominn á lappir. Vegna anna í aðdraganda mótsins og á meðan því stóð hafi hann ákveðið að taka sér frí ákkúrat þennan dag. 

Smella hér og lesa viðtalið í blaðinu

„Ég held ég muni ekki klæða mig í dag, stefni á að slá metið í leti eftir erilsama síðustu daga. Ég er örugglega ekki sá eini sem er eftir mig eftir þessa helgi, allir sjálfboðaliðarnir og annað starfsfólk er örugglega þreytt. Þetta gekk vonum framar og verður seint hægt að full þakka þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum frá Vogum sem lögðu hönd á plóg, eins vil ég minnast á og þakka Jóhanni Ingimar Hannessyni, umsjónamanni fasteigna hjá Sveitafélaginu Voga og öðru starfsfólki sveitarfélagsins, sem unnu baki brotnu alla helgina og vil ég hér með þakka þeim kærlega fyrir ómetanlegt starf,“ segir hann og bætir við fólki frá björgunarsveitinni Skyggni, kvenfélaginu Fjólu, Minjafélaginu auk annarra sem gerðu mótið að veruleika og stóðu vaktir allt upp undir tíu klukkustundir á dag. 

Spurður hvaða greinar hafi verið honum eftirminnilegastar rifjar hann upp að flestir hafi keppt í boccia auk þess sem góð mæting hafi verið í Strandarhlaup Blue. Þá sé ringó skemmtileg grein. 

 

Næsta mót fyrir norðan

Landsmót UMFÍ 50+ er haldið á hverju ári. Það verður næst haldið í Fjallabyggð, þ.e. á Siglufirði og Ólafsfirði dagana 27. – 29. júní í samstarfi við Ungmenna- og Íþróttasamband Fjallabyggðar (UÍF) og sveitarfélagið Fjallabyggð. 

Hvar finn ég myndir af mótinu?

Fjölmargar myndir voru teknir á Landsmóti UMFÍ í Vogum og eru þær aðgengilegar á nokkrum stöðum. 

Við vistum myndir á myndasíðu UMFÍ á Flickr og þar er hægt að skoða myndir frá fleiri viðburðum UMFÍ. Við setjum myndir af hverri grein líka í albúm á Facebook. Auðvitað er alltaf best að líka við Facebooksíðu UMFÍ til að fylgjast með fréttum þar og nýjustu myndum sem detta inn. 

Myndasöfn á Flickr

Myndir á Facebook

Líka við Facebook-síðu UMFÍ