Fara á efnissvæði

21. október 2023

Tímamótatillaga samþykkt á þingi UMFÍ

„Hér voru tekin stórkostleg skref. Íþróttahreyfingin á að vera í fararbroddi og sýnir nú í verki að hún er tilbúin til að taka stórar og mikilvægar ákvarðanir,‟ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður Ungmennafélags Íslands. Tímamótatillaga var einróma samþykkt á sambandsþingi UMFÍ í dag sem felur í sér stofnun svæðaskrifstofa íþróttahéraða víða um land í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og stjórnvöld. Af lottógreiðslum til UMFÍ fari 15% til reksturs svæðaskrifstofanna og 85% til íþróttahéraða eftir íbúafjölda 18 ára og yngri.

Samkvæmt tillögunni verður komið á fót átta svæðastöðvum með sextán stöðugildum sem munu þjónusta íþróttahéruð landsins með samræmdum hætti.

Vinnuhópar UMFÍ og ÍSÍ sem unnu að tillögunni horfa til þess að sterkari íþróttahéruð og svæðastöðvar um allt land bæti skilvirkni íþróttahreyfingarinnar.  

Ráðherra styður málið

Tillagan er í grunninn sú sama og var samþykkt á þingi ÍSÍ í vor. Aðeins þurfti samþykki þingfulltrúa UMFÍ á sambandsþingi til að breytingin geti farið í farveg. Breytingarnar munu taka gildi eftir að samningar nást við ríkisvaldið um að það leggi fram sambærilegan fjárhagslegan stuðning til svæðisskrifstofa íþróttahéraða, meðal annars með vísan til farsældarlaga.

„Þessi tillaga tekur mið af breyttum tímum og horfir til fyrirsjáanlegrar og líklegrar þróunar samfélagsins. Að mínu mati á samþykkt tillögunnar að geta leitt til þess að íþróttahreyfingin í heild nái enn frekari og betri árangri og framþróun á komandi árum,‟ sagði hann og áréttaði að markmið tillögunnar sé meðal annars að taka við verkefnum stjórnvalda, létta álagi og ábyrgð af sjálfboðaliðum, fá aukið fjármagn inn í íþróttahreyfinguna, auka samstarf og samstarfsmöguleika,‟ sagði hann.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, var gestur við setningu sambandsþing UMFÍ í gær og flutti þar ávarp. Þar sagði hann búið að tryggja einn starfsmann á hvert starfssvæði sem tillagan kveður á um og fjármagn til að viðkomandi geti sinnt vinnu sinni.