Fara á efnissvæði
06. maí 2024

Þreyttar húsmæður hlaupa með forseta Íslands

„Þetta er fullkomið hlaup fyrir okkur, enda engar hlaupadrottningar og sumar okkar ætla að ganga,“ segir Bryndís Snorradóttir, forsprakki skokkhópsins Þreyttar húsmæður. Hópurinn samanstendur af fimmtán konum á fertugsaldri sem búsettar eru á höfuðborgarsvæðinu og hefur stór hluti hans skráð sig til þátttöku í Forsetahlaupi UMFÍ, sem fram fer á fimmtudag.

Spurð um ástæðu nafns hópsins svarar Bryndís:

„Erum við ekki alltaf eitthvað pínu þreyttar? Við eigum allar nokkur börn og í allkonar vinnum. Okkur vantaði hvatningu til að hittast og hreyfa okkur reglulega saman. Á þeim mánuði sem liðinn er síðan við stofnuðum skokkhópinn höfum við alltaf hist á mánudagskvöldum klukkan hálf átta, farið á Helgafell og í nokkrar stuttar fjallgöngur. Við þurftum viðeigandi nafn og þetta var það augljósasta,“ segir hún.  

 

Hlaup í fínu veðri

Forsetahlaupið er stutt og gott hlaup fyrir allar skankastærðir og fer það fram á Álftanesi. Hlaupið fór þar fyrst fram árið 2022 en var svo haldið á Patreksfirði í fyrra. Þetta er því þriðja skiptið sem hlaupið fer fram. Á sama tíma verður bæjarhátíðin Forsetabikarinn á Álftanesi, sem er líka fyrir alla fjölskylduna. 

Guðni Th. Jóhannesson, verndari UMFÍ, tekur þátt í hlaupinu.

Forsetahlaupið er fimm kílómetra hlaup á jafnsléttu. Það hefst við íþróttamiðstöðina á Álftanesi og er hlaupið að Bessastöðum og víðar. Þetta gæti þess vegna verið ágæt upphitun fyrir forsetaframbjóðendur sem vilja máta sig við Bessastaði. 

Veðurstofan spáir 8 gráðu hita og hægri breytilegri átt, þurru og björtu veðri. 

Þetta er því fínasta hlaupveður fyrir fólk á öllum aldri, börn, unglinga, táninga, ungt fólk, miðaldra, foreldra, afa og ömmur og líka fyrir þreyttar húsmæður. 

Viðburðurinn er fyrir alla fjölskylduna og eða einstaklinga þar sem tíminn skiptir ekki máli heldur er áhersla á gleði, hreyfingu og samveru - eða hinn sanna ungmennafélagsanda! 

Skráning fer fram á hlaup.is. Þátttökugjald er 500 kr. fyrir 17 ára og yngri og 1.500 kr. fyrir 18 ára og eldri. 

Allir þátttakendur frá verðlaun.

Skráning stendur yfir á hlaup.is