Fara á efnissvæði
30. apríl 2019

Ragnheiður og Elísabet á meðal þátttakenda á Evrópsku ungmennavikunni

„Það er greinilega alveg sama hvar ungt fólk er statt í heiminum, það vinnur alltaf að svipuðum úrlausnarefnum. Það er svo mikilvægt að fræðast og valdefla ungt fólk svo raddir þess fái að styrkjast og heyrast betur,“ segir Ragnheiður Sigurðardóttir, landsfulltrúi UMFÍ og verkefnastjóri ráðstefnunnar Ungt fólk og lýðræði. Hún og Elísabet Kristjánsdóttir úr ungmennaráði UMFÍ, eru staddar þessa dagana ásamt fleiri Íslendingum á ráðstefnu í Evrópuþinginu í Brussel sem haldin er í tengslum við Evrópsku ungmennavikuna.

Evrópska ungmennavikan er haldin um alla Evrópu dagana 29. apríl – 5. maí undir yfirskriftinni „Lýðræði og ég“. Markmiðið er að finna leiðir fyrir ungt fólk til að hafa áhrif á ákvarðanatöku í samfélaginu, hvernig það getur orðið virkari þátttakendur og leiðir til að auka þátttöku innflytjenda í samfélaginu.  

Viðburður vikunnar sem þær Ragnheiður og Elísabet sækja í Brussel samanstendur af vinnustofum, málþingi, markaðstorgi og ýmislegu fleiru tengdu ungu fólki og lýðræðislegri þátttöku ungs fólks.

 

Miðla þekkingu til ungs fólks

„Við erum að læra um Evrópusambandið, almennt um lýðræði og möguleikana sem felast í því fyrir ungt fólk þegar það nýtir kosningarétt sinn,“ segir Ragnheiður. Hún bætir við að boðið er upp á mikla fræðslu um lýðræðislega þátttöku og miðlun þekkingar á árangursríkum aðferðum svo raddir ungmenna heyrist betur í samfélaginu. Tengslamyndum er líka mikil enda um 3.000 manns á viðburðinum, að sögn Ragnheiðar. Þær Elísabet standa jafnframt fyrir kynningu á Ungu fólki og lýðræði og UMFÍ á ráðstefnunni í Brussel.

Ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði, sem ungmennaráð UMFÍ heldur á hverju ári, var valið sem eitt af fyrirmyndarverkefnum tengt lýðræðislegri þátttöku ungs fólks í Evrópu. Ráðstefnan hefur verið haldin í tíu ár og eru þau mál í brennidepli á henni sem eru ofarlega í hugum þátttakenda hverju sinni. Eins og áður sagði er ráðstefnan á vegum Ungmennaráðs UMFÍ. Ungmennaráðið samanstendur af tíu manns á aldrinum 16-25 ára af landinu öllu.

Síðasta ráðstefna Ungs fólks og lýðræðis var haldin í Borgarnesi dagana 10. – 12. Apríl í Borgarnesi. Yfirskrift ráðstefnunnar var: Betri ég! Hvernig get ég verið besta útgáfan af sjálfum mér?

Aðalstyrktaraðili ráðstefnunnar Ungt fólk og lýðræði var Erasmus+

 

Meira um Ungt fólk og lýðræði

MeUngt fólk og lýðræði

Ungt fólk hefur áhrif

Lilja hvetur ungt fólk til að taka þátt í félagsstarfi

Mikilvægt að fylgja innsæinu og trúa á sjálfan sig

Uppselt á ráðstefnuna

 

Elísabet, Ragnheiður og fleiri þátttakendur frá Íslandi á ráðstefnunni