Fara á efnissvæði
16. maí 2024

Íþróttahreyfingin í framlínu farsældar

Framlínufólk í farsældarþjónustu fyrir börn og ungmenni á Vesturlandi fundaði á Farsældardeginum í Borgarnesi í dag. Fyrir hönd íþróttahreyfingarinnar á svæðinu sátu þær Bjarney Láru Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB), Guðmunda Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akraness (ÍA) og Gunnhildur Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Héraðssambands Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH).

Farsældardagurinn er samstarfsvettvangur framlínufólks í velferðarþjónustu barna og skólaþjónustu á Vesturlandi með það að leiðarljósi að efla tengslanet og staðbundna þekkingu innan málaflokksins
Standa vonir til að afurð dagsins nýtist í ákvarðanatöku stjórnvalda og til eflingar farsældar barna og ungmenna á Vesturlandi.

 

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, ræðir um Farsældarlögin í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Ásmundur segir lögin mynda lögbundið samtal á milli aðila sem vinna með börnum. Innleiðing farsældarlaganna standi yfir og er horft til þess að henni ljúki eftir 2–3 ár. Þegar farsældarlögin verði innleidd verði þau orðin að rútínu í umhverfi barna og ungmenna.

Ásmundur segir farsældarlögin og allt þeim tengt ætlað að grípa börn og ungmenni sem standi frammi fyrir áskorunum fyrr en verið hafi. 

„Ef barn er að glíma við áskoranir þurfum við að grípa það snemma. Ef okkur tekst það fækkar vandamálunum og auðveldara verður að vinna með fleirum að málinu. Það er því hluti af innleiðingunni að tengja skóla og íþróttahreyfinguna inn í samtalið. Við sjáum einmitt að í þeim sveitarfélögum þar sem verklagið hefur verið innleitt fækkar barnaverndarmálum. Við sjáum einmitt að reykskynjarar virka með sama hætti. Þeir gera það að verkum að fólk getur kallað slökkviliðsbílana út. Íþróttir og tómstundir og þessi óformlegi hluti menntakerfis okkar eru þess vegna ótrúlega mikilvæg í þessari snemmtæku hugsun,“ segir hann. 

Enn meira í Skinfaxa

Þú getur smellt á hlekkinn hér að neðan og lesið allt blaðið og viðtalið við Ásmund Einar.

Lesa nýjasta tölublað Skinfaxa