Fara á efnissvæði
02. maí 2024

Inga Kristín hlaut starfsmerki UMFÍ

Inga Kristín Sveinbjörnsdóttir fékk starfsmerki UMFÍ á ársþingi Ungmennasambandsins Úlfljóts (USÚ) í vikunni. Hún hefur starfað sem sjálfboðaliði fyrir USÚ frá fermingaraldri eða síðan árið 1972. Hún sat í stjórn USÚ um árabil, bæði sem varaformaður, gjaldkeri og meðstjórnandi og er enn  í nefndum. Hún sat líka í stjórnum deilda Umf Sindra og í aðalstjórn í áratug.

Ragnheiður Högnadóttir afhenti Ingu Kristínu starfsmerkið. Ragnheiður var fulltrúi UMFÍ á þinginu. Hún situr í stjórn UMFÍ og er formaður framkvæmdastjórnar UMFÍ. 

Ragnheiður hélt ávarp á þinginu og sagði þar meðal annars frá breytingum á lottóreglugerðum UMFÍ og ÍSÍ og stofnun átta nýrra svæðastöðva íþróttahreyfingarinnar um allt land. Þær muni styrkja nærsamfélag íþróttahéraðanna, verða til hagsbóta fyrir iðkendur og styrkja íþróttalífið um allt land. Þær falli vel að áherslum og stefnu mennta- og barnamálaráðuneytis í íþróttamálum, þar sem horft er til þess að auka íþróttaþátttöku barna og ungmenna, auka áherslu á þátttöku fatlaðra barna í íþróttastarfi, ná betur til barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Hún sagði einnig frá því að nýverið hafi Íþróttabandalag Suðurnesja (ÍS) gengið í UMFÍ og fyrir lægi aðildarumsókn frá Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar (ÍRB). Eftir stendur Íþróttabandalag Vestmannaeyja (ÍBV), sem eina íþróttahérað landsins sem ekki tilheyrir UMFÍ. Þá sagði Ragnheiður frá þeim viðburðum sem UMFÍ stendur fyrir á árinu.

„Þetta var stórfínt þing, rólegt og átakalaust og það besta í minni formannstíð,“ segir Jóhanna Írisi Ingólfsdóttir, formaður USÚ. Á þingið mættu 44 af 52 fulltrúum sem rétt áttu til setu á því. Annað ánægjuefni var að fulltrúar komu frá öllum níu aðildarfélögum USÚ. 

Engin breyting varð á stjórn og er Jóhanna Íris enn formaður USÚ. Fáar tillögur lágu fyrir þinginu og voru þær samþykktar samhljóða.

Á þinginu hlutu ýmsir íþróttamenn verðlaun og hvatningu. Cristina A. Oliveira Ferreira var tilefnd Íþróttamaður USÚ 2023. Hvatningarverðlaun hlutu þau Arna Ósk Arnarsdóttir, Hannes Þór Guðnason, Hilmar Óli Jóhannsson og Ída Mekkín Hlynsdóttir.