Fara á efnissvæði

21. október 2023

Forseti Íslands: Ungmennafélögin lykilaðilar í lýðheilsu

Ungmennafélög geta gegnt lykilhlutverki í lýðheilsumálum, stuðlað að hollri hreyfingu og útivist, æfingum og keppni. „En lýðheilsa snýst ekki um útlitsdýrkun eða hvatningu til að vera alltaf í ræktinni eða uppi á fjöllum. Aðgerðir á sviði lýðheilsu eiga að snúast um jákvæða hvata og heilbrigt sjálfstraust án alls metings og monts,‟ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Hann flutti ávarp á sambandsþingi UMFÍ sem fram fer á Hótel Geysi í Haukadal um helgina. Guðna var boðið á þingið en hann sá sér því miður ekki fært að mæta þar sem hann var í Noregi og sendi því rafrænt ávarp sem kastað var upp á skjá.

Guðni færði þingfulltrúum heillaóskir og hlýjar kveðjur, áréttaði mikilvægi málefni lýðheilsu í samfélaginu og rifjaði upp þegar ungmennafélagsandinn sveif yfir vötnum í kringum þann tíma sem Sigurður Greipsson starfrækti íþróttaskóla í Haukadal og þegar ungmennafélögin voru nýstofnuð.

„Við vorum undir erlendu valdi, fátæk smáþjóð á norðurhjara. Nú er sjálfstæði löngu fengið og almenn hagsæld mun meiri en áður, Íslendingar í hópi ríkustu þjóða heims og umhverfisvernd ofarlega í huga almennings, ekki síst ungu kynslóðarinnar. Áfram þarf þó að sinna ræktun lýðs og lands,‟ sagði hann og áréttaði mikilvægi lýðheilsu.

En öllu megi ofgera.

„Lýðheilsa snýst ekki um eilífan samanburð, eilíft álag og eilífa keppni við sjálfan sig og aðra. Aðgerðir á sviði lýðheilsu eiga að snúast um jákvæða hvata og heilbrigt sjálfstraust án alls metings og monts,‟ sagði hann og þakkaði sérstaklega fyrir afar góða samvinnu við undirbúning og framkvæmd Forsetahlaupsins, sem var haldinn í annað sinn á Patreksfirði í september.

 

Ávarp forseta Íslands í heild sinni