Fara á efnissvæði
02. febrúar 2024

Bjarney hjá UMSB: Margir leggja hugmyndir í púkkið

„Eftir góðan fund með sambandsstjóra UMSB og Ómari Braga Stefánssyni, framkvæmdastjóra móta UMFÍ, nú fyrir stuttu sáum við að málin standa bara mjög vel,“ segir Bjarney Lárudóttir Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri  Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB).

25. Unglingalandsmót UMFÍ fer fram í Borgarnesi um verslunarmannahelgina á nýju ári. Búið er að manna framkvæmdastjórn og mikill hugur er í fólki á svæðinu.

„Við erum með ótrúlega reynslubolta þegar kemur að mótahaldi á sambandssvæðinu öllu og öfluga  sjálfboðaliða, þar er að finna mikla reynslu og þekkingu,“ segir Bjarney.

Hún bætir svo við að bæði hafi fólk haft samband við sig til að sýna komandi móti áhuga sem og koma með  sínar hugmyndir að framkvæmd og fleiru tengdu mótinu byggt á sinni þekkingu og reynslu.

„Ég kann ótrúlega vel að meta og þykir vænt um frumkvæði fólks að láta vita af sínum hugmyndum. Það er svo gott að læra af þeim sem hafa gengið veginn á undan manni. UMSB er öflugt þegar kemur að landsmótum og það er dásamlegt að leyfa yngri kynslóðinni að njóta reynslu þeirra sem eldri eru,“ segir Bjarney.

Unglingalandsmót UMFÍ fer fram um verslunarmannahelgina í Borgarnesi 2024. Skráningargjald er 8.900 kr. Öll ungmenni á aldrinum 11 - 18 ára geta skráð sig til leiks. Ekki er skilyrði að vera skráð/ur í ungmenna- eða íþróttafélag.

Innifalið í verðinu er tjaldsvæði fyrir alla fjölskylduna, allri afþreyingu, öllum tónleikunum sem verða á hverju kvöldi og mörgu fleiru skemmtilegu.

Allar upplýsingar um mótið er að finna á:

 

Heimasíða Unglingalandsmóts UMFÍ

Unglingalandsmót UMFÍ á Facebook