Fara á efnissvæði
03. nóvember 2023

Aldís er nýr verkefnastjóri hjá UMFÍ

„Ég er mjög spennt fyrir því að vera komin til starfa,“ segir Aldís Baldursdóttir, sem í vikunni var ráðin í tímabundið starf verkefnastjóra hjá UMFÍ. Hún mun sjá um gerð alþjóðlegra styrkumsókna, svo sem hjá Erasmus+, ásamt því að vinna við samfélagsmiðla, gerð kynningarefnis og ýmis önnur tilfallandi verkefni í samskiptum við íþrótta- og ungmennafélagshreyfinguna um allt land. Hún mun jafnframt vinna við viðburði UMFÍ, Unglingalandsmót, Landsmót UMFÍ 50+, ungmennaráðstefnur, útgáfu blaða og tímarita og margt fleira.

Aldís er 28 ára sveitastelpa frá Klængsseli í Gaulverjabæjarhreppi, sem er innan sambandssvæðis Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK). Grunnnám hennar er í stærðfræðikennslu á unglingastigi í grunnskóla og að auki með meistaragráðu í fjölmiðla- og boðskiptafræðum frá Háskóla Íslands.

Aldís er með nokkurn grunn í íþróttum eins og hefð er fyrir innan HSK.

„Ég æfði glímu í sveitinni og var í frjálsum íþróttum en æfði síðan handbolta með Umf Selfossi og tók þátt í Grýlupottahlaupum,“ segir hún. „Ég hef mikinn áhuga á lýðheilsu og eflingu líkamlegrar og andlegrar heilsu fólks.“

Nú stundar Aldís bæði utanvegahlaup og götuhlaup og hefur hlaupið bæði 50 km og 26 km í Hengil Ultra og fleiri hlaupaviðburðum.

Sambandsaðilar UMFÍ eru 27 talsins, sem skiptast í 22 íþróttahéruð og 5 ungmennafélög sem eru með beina aðild. Tæplega 500 félög eru innan UMFÍ, þar á meðal öll íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu og nærri því öll félög á Íslandi. Ljóst er af því að Aldís mun hafa nóg að gera í samskiptum við félögin.