Fara á efnissvæði

Reglugerð um heiðursviðurkenningar

 1. grein. Heiðursfélagi UMFÍ
  Stjórn og/eða sambandsþing UMfÍ geta útnefnt heiðursfélaga UMFÍ.

  Heiðursfélögum skal við hátíðlega athöfn afhentur heiðursfélagakross UMFÍ sem er æðsta heiðursmerki samtakanna.

  Einungis skal útnefna heiðursfélaga þá sem hafa unnið áratuga heillaríkt starf fyrir UMFÍ, gegnt veigamiklu ábyrgðarhlutverki og unnið hreyfingunni ómetanlegt gagn. Heiðursviðurkenningar skulu að jafnaði afhentar þeim sem áður hafa hlotið gullmerki UMFÍ. Þessa sæmd má einnig sýna merkum brautryðjendum hreyfingarinnar.

  Heiðursfélagar hafa öll réttindi ungmennafélaga en eru sjálfráðir um skyldur. Heiðursfélögum skal boðið á öll sambandsþing UMFÍ, sambandsráðsfundi og alla helstu viðburði sem haldnir eru á vegum UMFÍ.

 2. grein. Gullmerki UMFÍ
  Gullmerki UMFÍ er næstæðsta sæmdarviðurkenning UMFÍ. Gullmerki er veitt þeim sem hafa um árabil unnið öflugt starf fyrir ungmennafélagshreyfinguna, verið í forystu í héraði eða á vettvangi UMFÍ eða í áratugi unnið ötullega að eða tekið þátt í verkefnum UMFÍ. Einnig má veita þessa viðurkenningu við sérstök tækifæri sem stjórn telur við hæfi. Gullmerki skulu að jafnaði afhent þeim sem áður hafa hlotið starfsmerki UMFÍ.

  Stjórn UMFÍ veitir einstaklingum gullmerki UMFÍ.

 3. grein. Starfsmerki UMFÍ
  Starfsmerki UMFÍ má veita fyrir frábært forystustarf í félagi, deild félags eða á vettvangi sambands, fyrir eftirtektarverð átaksverkefni eða nýjungar í starfi, góða virkni eða árangur í skipulags- og félagsstörfum s.s. með setu í stjórnum eða nefndum og fyrir mikið framlag til ungmenna- og íþróttastarfs.

  Framkvæmdastjórn UMFÍ veitir einstaklingum starfsmerki UMFÍ.

 4. grein. Þakkarskjöldur UMFÍ
  Þakkarskjöld UMFÍ má veita hverjum þeim aðila eða stofnun sem hefur komið sterkt að verkefnum UMFÍ eða sýnt ungmennafélagshreyfingunni góðan stuðning. Viðkomandi þarf ekki að vera ungmennafélagi eða tilheyra hreyfingunni. Stjórn UMFÍ veitir þakkarskjöld UMFÍ.

 5. grein. Heiðursráð
  Stjórn UMFÍ skipar heiðursráð UMFÍ sem skal skipað þremur einstaklingum. Heiðursráð er ráðgefandi fyrir stjórn og framkvæmdastjórn UMFÍ um veitingu viðurkenninga.  Stjórn getur leitað umsagnar ráðsins á tillögum sambandsaðila eða óskað eftir tillögum ráðsins vegna Heiðursfélaga,  Gull– og starfsmerkja.

Breytingar á reglugerð þessari skulu samþykktar af stjórn UMFÍ.

Samþykkt af stjórn UMFÍ 29. september 2021.

Viðauki við reglugerðina

Viðmiðunarreglur

Heiðursfélagar: 

 • Hefur unnið áratuga heillaríkt starf fyrir sitt hérað.
 • Hefur unnið áratuga heillaríkt starf fyrir UMFÍ.
 • Hefur gengt veigamiklu ábyrgðarhlutverki í hreyfingunni.
 • Hefur unnið ómetanlegt gagn í hreyfingunni.
 • Hefur unnið brautryðjendastarf fyrir hreyfinguna.
 • Hefur hlotið gullmerki UMFÍ.

Gullmerki:

 • Hefur um árabil unnið öflugt starf fyrir ungmennafélagshreyfinguna.
 • Hefur um árabil verið í forystu í héraði eða á vettvangi UMFÍ.
 • Hefur í áratugi unnið ötullega að eða tekið þátt í verkefnum UMFÍ.
 • Hefur að jafnaði hlotið starfsmerki UMFÍ.

Starfsmerki:

 • Hefur unnið frábært forystustarf í félagi, deild félags eða á vettvangi sambands.
 • Hefur unnið/framkvæmt eftirtektarvert átaksverkefni.
 • Hefur sýnt nýjungar í starfi.
 • Hefur sýnt góða virkni eða árangur í skipulags- og/eða félagsstörfum.
 • Hefur innt af hendi mikið framlag til uppeldis- og íþróttastarfs.