Fara á efnissvæði

Landsmót UMFÍ 50+

Reglugerð mótsins

Reglugerð Landsmóts UMFÍ 50+

1. Almennt um mótið

1.1 Mótið skal vera fjölbreytt og með sem mestum menningarblæ. Markmið mótsins er að bæta lýðheilsu almennings. 

1.2 Landsmót UMFÍ 50+ skal halda ár hvert og standa í þrjá daga. Mótssetning skal fara fram á föstudegi og mótsslit á sunnudegi. 

1.3 Skipa skal framkvæmdanefnd sem starfar að undirbúningi og framkvæmd mótsins. Í henni skulu sitja fulltrúar frá mótshaldara (sambandsaðila), sveitarfélagi og UMFÍ. 

2. Umsókn og undirbúningur

2.1 Stjórn UMFÍ skal auglýsa eftir sambandsaðilum sem áhuga hafa á að halda Landsmót 50+ og tilkynna niðurstöðu með formlegum hætti. 

2.2 UMFÍ skal gera skriflega samninga um mótið og framkvæmd þess. Aðilar að samningum eru mótshaldari (sambandsaðili), viðkomandi sveitarfélag og UMFÍ. 

2.3 UMFÍ skal, ásamt mótshaldara og viðkomandi sveitarfélagi, vinna sameiginlega að yfirbragði mótanna, m.a. með fjármögnun og kynningu þeirra. UMFÍ leggur til framkvæmdastjóra mótsins á sinn kostnað. 

3. Um þátttökurétt

3.1 Allir 50 ára og eldri hafa keppnisrétt á mótinu. Aldur miðast við almanaksár. 

3.2 Hver keppandi má keppa í eins mörgum keppnisgreinum og hann vill. Ef þátttaka er mikil getur mótshaldari í samráði við framkvæmdanefnd sett takmarkanir á fjölda þátttakenda bæði í einstaklings- og liðagreinum. Mótshaldara er heimilt að auglýsa ótakmarkaða þátttöku í einstökum greinum, þar sem höfðað er til fjöldaþátttöku, s.s. í almenningshlaupum óháð aldri. 

3.3 Auglýsa skal drög að tímasettri dagskrá mótsins í síðasta lagi mánuði fyrir mót. 

3.4 Skráningu lýkur um miðnætti síðasta sunnudag fyrir mót. Framkvæmdanefnd hefur heimild til að lengja skráningarfrest í öllum eða ákveðnum greinum. 

3.5 Stjórn UMFÍ ásamt mótshaldara ákveður þátttökugjald hverju sinni. 

4. Starfsfólk

4.1 Mótshaldari ber ábyrgð á að útvega starfsfólk/sjálfboðaliða við allar keppnisgreinar og viðburði mótsins. 

5. Um fundi, kærur og fleira

5.1 Áður en keppni hefst skal stjórn UMFÍ skipa þriggja manna dómnefnd. Nefndin skal fjalla um öll deilumál sem upp koma fyrir keppni eða í keppninni og dæma í þeim samkvæmt reglugerð þessari og leikreglum viðkomandi sérsambands. Kærur skulu vera skriflegar og berast til mótsstjórnar eigi síðar en einni klukkustund eftir lok þeirrar keppni sem kæra á. Kærur skulu undirritaðar af forsvarsmanni viðkomandi keppnisliðs eða einstaklings. Úrskurði dómnefndar verður ekki áfrýjað. 

6. Keppnisgreinar

6.1 Framkvæmdanefnd ákveður keppnisgreinar á mótinu í samráði við UMFÍ. 

6.2 Framkvæmdanefnd ákveður aldursskiptingar í öllum keppnisgreinum. 

7. Um verðlaun

7.1 Þrír fyrstu í hverri grein hljóta verðlaun.

8. Annað

Breytingar á reglugerð þessari skulu samþykktar af stjórn UMFÍ.

9. Grein

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi og eru jafnframt eldri reglugerðir mótsins úr gildi fallnar. 

Samþykkt á 50. sambandsþingi UMFÍ 2017 á Hallormsstað.

Uppfært á stjórnarfundi UMFÍ hinn 17. febrúar 2023.