04. nóvember 2025
Ungmennaráðið hitti jólasveininn
Ungmennaráð UMFÍ er nú statt á ungmennaráðstefnunni NordUng, sem fram fer í Lapplandi í vikunni. Þema ráðstefnunnar eru raddir ungs fólks.
Ungmennaráðið kom út til Lapplands á föstudag í síðustu viku og dvelur í bænum Rovaniemi í sex daga ásamt ungu fólki frá hinum Norðurlöndunum. Umfjöllunarefni ungmennavikunnar eru málefni minnihlutahópa, sjálfsmynd, tengsl fólks og leiðir til að miðla þekkingu frá einum hópi til annars auk þess að ræða um leiðir til að styrkja rödd ungs fólks með virkri þátttöku í félagsstarfi.
Ungmennaráðið hefur unnið í málstofum og hópum með öðrum ungmennum. Nægur tími hefur fengist til óformlegra tengsla. Hópurinn fékk í dag tækifæri til að heimsækja jólasveininn, sem sagður er búa í Lapplandi.