Ungmennaráð UMFÍ: Mikilvægt að búa til vettvang
Æ oftar er rætt um að ungt fólk taki ekki þátt í félagsstarfi og að þrátt fyrir sítengingar í gegnum öll þau tæki sem til eru og samfélagsmiðla höfum við aldrei verið í minna sambandi við okkar nánasta fólk. Er það orðum ofaukið? Við sem tökum þátt í félagsstarfi sjáum lausnina. Við í ungmennaráði UMFÍ finnum á eigin skinni að andleg heilsa okkar er betri, líkamleg heilsa sömuleiðis, samband okkar við sjálf okkur, næsta fólk, vini og kunningja og samfélagið allt verður betra. Við skynjum samfélagið betur en áður. Við erum með og tökum þátt.
Ungt fólk og lýðheilsa
Ungmennaráð UMFÍ hefur staðið fyrir ungmennaráðstefnu síðastliðin sextán ár. Þar höfum við rætt um ýmis samfélagsleg mál, umhverfismál, loftslagsmál, samgöngumál, stöðu lýðræðis, málefni andlegrar og líkamlegrar heilsu og deilt skoðunum.
Ungmennaráðstefnan hefur rétt eins og UMFÍ tekið breytingum í gegnum tíðina. Breytingarnar hafa verið af hinu góða, þetta eru jákvæð skref fram á við. Vegferðin er í takt við fólkið og samfélagið. Á síðasta ári horfðum við inn á við og veltum fyrir okkur andlegri lýðheilsu, þessum tvíbura líkamlegrar heilsu, við skoðuðum líka stöðu okkar í samfélaginu. Ljóst er að málefni lýðheilsu brenna á fólki. Við viljum nefnilega vita hvað það er sem hefur áhrif á okkur, hvað stýrir líðan okkar og líkama, hvað getum við gert. Með sama hætti ræddum við um það hvernig við getum haft áhrif út á við, á samfélagið.
Ráðstefna ungmennaráðsins nú í september bar yfirskriftina Ungt fólk og lýðheilsa - Félagslegir töfrar. Þar köfuðum við enn dýpra í málefni félagslegrar heilsu. Ráðstefnuna sóttu um 70 ungmenni á aldrinum 16-25 ára sem unnu saman með ýmsum hætti. Félagslegir töfrar umluktu ráðstefnugesti, andinn var góður og ótrúlega fallegt að sjá ný tengsl verða til. Við sáum ungmenni vaxa með þátttöku sinni. Í rútunni heim sáum við að feimnustu þátttakendur höfðu skilið skel sína eftir og eignast nýja vini yfir helgina. Það var yndislegt og hlýjaði hjartanu.
Tökum þátt
Á ráðstefnunni töluðum við um leiðir til að gera félagsstörf áhugaverðari og hvað þurfi að gera til að ýta undir þátttöku ungmenna. Við þurfum að skapa góðan og skýran vettvang þar sem ungmenni finna að þau séu velkomin. Þeim vettvangi þarf að lyfta upp. Því segjum við: Áfram veginn! Við horfum björtum augum til framtíðar fyrir ungt fólk sem vill vera með og leggja af mörkum. Framtíðin er björt, en við getum gert hana bjartari og passað að komandi kynslóðir fái sömu tækifæri í íþróttahreyfingunni og félagsstörfum og við sem tökum þátt í dag.
Meira að lesa í nýjasta Skinfaxa
Leiðari ungmennaráðs UMFÍ er í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ.
Hægt er að smella á myndina af forsíðu blaðsins hér að neðan og lesa blaðið allt á umfi.is.
Efni blaðsins
- Hvað kostar að æfa íþróttir? – Æfingagjöld íþróttafélaganna
- Samanburður á frístundastyrkjum sveitarfélaga
- Hvað kostar að eiga börn og ungmenni sem keppa í íþróttum?
- Iðkendur vaxa og dafna í íþróttum
- Viðtalið: Engilberg Olgeirsson segir sóknarfæri sem kalli á breytta hugsun
- Ástþór Jón Ragnheiðarson: Gæta hófst í æfingagjöldum.
- Samskiptaráðgjafi: Hatursorðræða skýtur upp kollinum
- Hvernig getum við gert íþróttir aðgengilegri fyrir öll börn?
- Félagslegir töfrar felast í góðum samskiptum: Ungmennaráðastefnan Ungt fólk og lýðheilsa
- Sara Jóhanna: Ungt fólk vill láta heyra í sér
- Árni Matthías: Bjó til app til að fjölga góðverkum
- Dr. Viðar Halldórsson: Fer út í búð og hrósar ókunnugum
- Kolbrún hjá Æskulýðsvettvanginum: Íþróttafólk er duglegt að sækja sér fræðslu
- Unglingalandsmót UMFÍ 2025 á Egilsstöðum
- Góð þátttaka og mikil gleði á Landsmóti UMFÍ 50+
- Enn meira stuð og enn meiri drulla
- Þegar við höfum upp á eitthvað að bjóða þá halda krakkarnir sig í íþróttum
- Gamla myndin: Víðtæk umræða á 21. Sambandsþingi UMFÍ 1959