Undirbúningur í fullum gangi fyrir Unglingalandsmót

„Undirbúningur Unglingalandsmóts gengur ljómandi vel og allar okkar áætlanir eru á tímaplani,“ segir Ómar Bragi, framkvæmdastjóri mótsins. Öflugur hópur sjálfboðaliða er á svæðinu að gera allt klárt fyrir verslunarmannahelgina þar sem fram fer sannkölluð íþrótta- og fjölskylduhátíð. „Það eru fjölmargar keppnisgreinar á mótinu og vinna við þær stendur yfir en það er mikill fjöldi sjálfboðaliða sem þarf við allar keppnisgreinar,“ segir Ómar.
Á dögunum fóru Ómar Bragi, framkvæmdastjóri mótsins ásamt Silju og Maríu, verkefnastjórum mótsins, í skoðunarferð um mótsvæðin. Með þeim í för voru Dagmar Ýr, sveitastjóri Múlaþings og Hugrún Hjálmarsdóttir, framkvæmda- og umhverfismálastjóri Múlaþings. Þar var farið vandlega yfir helstu keppnissvæði, aðstöðu og skipulag, allt með það að markmiði að tryggja sem besta aðstöðu og upplifun fyrir alla sem koma að mótinu – jafnt þátttakendur sem gesti.
Á myndinni hér að ofan má sjá þau Ómar Braga, Hugrúnu, Dagmar Ýr, Silju og Maríu.
Tjaldsvæði mótsins
„Við höfum verið að vinna töluvert með tjaldsvæði mótsgesta og völdum þann kost að hafa tjaldsvæðið sem allra næst keppnissvæðunum,“ segir Ómar. Tjaldsvæði fyrir alla fjölskylduna er innifalið í þátttökugjaldi mótsins. Í ár verða tvö tjaldsvæði í boði: Aðal tjaldsvæði bæjarins sem er staðsett við Nettó og N1 og annað tjaldsvæði skammt frá, staðsett á milli flugvallarins og aðal tjaldsvæðisins.
Allir öruggir á Unglingalandsmóti
Lagt er rík áhersla á að öryggismál séu í lagi á mótinu og því hittust fulltrúar skipuleggjenda mótsins, fulltrúar lögreglunnar, sjúkraflutninga, slökkviliðs og fulltrúar Múlaþings á samráðsfundi í síðustu viku. Þar var farið yfir allt sem snýr að öryggi og aðbúnaði svo allir geti notið mótsins í öruggu og traustu umhverfi.
„Við sem höfum staðið í eldlínunni undnafarið hlökkum verulega til að taka á móti gestum okkar og vonum sannarlega að allt takist vel til,“ segir Ómar Bragi.
