Fara á efnissvæði
29. júlí 2017

Tvíburabræður keppa saman í sjö greinum á Unglingalandsmóti

„Okkur finnst gaman að fara út á land og keppa með vinum okkar,“ segir Einar Andri Briem. Hann og tvíburabróðir hans Helgi Hrannar, hafa skráð sig í sjö mismunandi greinar á Unglingalandsmóti UMFÍ sem fram fer á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina.

Þeir eru 14 ára, æfa knattspyrnu með Breiðabliki og handbolta með HK í Kópavogi og eru skráðir á mótið undir merkjum Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK).

Einar og Helgi hafa alltaf keppt saman síðan þeir mættu á Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki árið 2014 og fram til þessa alltaf í fótbolta. Þeir hafa skráð sig nú í fótbolta, körfubolta, frisbígolf, bogfimi, fjallahjólreiðar, strandblak og í liðakeppni í kökuskreytingum.


Ekkert mál að keppa í mörgum greinum
Einar hefur engar áhyggjur af því hvort þetta eru of margar greinar.

„Við ætlum að keppa saman í öllum greinunum. Ef við komumst ekki í eitthvað þá bara sleppum við þeim,“ segir hann.

Myndin hér að ofan var tekin af bræðrunum á Unglingalandsmóti UMFÍ í Borgarnesi um verslunarmannahelgina 2016.


Þeir Einar og Helgi skráðu sig ekki í allar greinarnar í einu heldur eina í einu. Þeir skráðu sig í sjöundu og síðustu greinina nú í vikunni.

Svona á að skrá þátttakendur á Unglingalandsmót UMFÍ: Leiðbeiningar


Stutt í að skráningu lýkur
Skráning er í fullum gangi á Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina þetta árið. Henni lýkur á miðnætti á sunnudag, 30. júlí.

Unglingalandsmótið er opið öllum á aldrinum 11 - 18 ára. Allir geta tekið þátt, óháð hvort viðkomandi sé í einhverju íþróttafélagi eða ekki. Mótsgjald er kr. 7.000.- á hvern einstakling 11–18 ára sem skráir sig til þátttöku. Greiða þarf gjaldið til að geta klárað skráningu. Aðrir mótsgestir greiða ekkert gjald en þó geta þeir tekið þátt í fjölbreyttri afþreyingu og verkefnum sem boðið er upp á.

Það verður líf og fjör á Egilsstöðum frá morgni og fram á kvöld alla mótsdagana. Boðið verður upp á ýmsar smiðjur, kynning verður á skemmtilegum greinum, kvöldvökur ofl. ofl. ofl. Öll afþreying er opin og án endurgjalds.

Í ár eru 24 mismunandi íþróttagreinar í boði þannig að allir áhugasamir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Greinarnar eru:
Boccia - Bogfimi - Fimleikalíf - Fjallahjólreiðar - Frisbígolf - Frjálsar íþróttir - Glíma - Golf - Götuhjólreiðar - Hestaíþróttir - Knattspyrna - Kökuskreytingar - Körfuknattleikur - Motocross - Ólympískar lyftingar - Rathlaup - Skák - Skotfimi - Stafsetning - Strandblak - Sund - UÍA þrekmót - Upplestur og Íþróttir fatlaðra.

Ekki missa af þessu skemmtilega móti!

Skráðu þig hér