Fara á efnissvæði
09. janúar 2026

Þorgerður er sjálfboðaliði ársins á Vestfjörðum

Þorgerður Karlsdóttir er sjálfboðaliði ársins 2025 á Vestfjörðum. Fjöldi einstaklinga var tilnefndur og var nafn Þorgerðar dregið upp úr kassanum. Tilnefningin var í tilefnin af Degi sjálfboðaliðans 5. desember síðastliðinn. Þorgerður var í fríi utan landsteina þegar þetta var og hafði ekki tök á að taka við viðurkenningunni. Hún sneri til baka á dögunum og tók hún því við viðurkenningu og þakklætisvotti frá svæðisfulltrúum íþróttahéraðanna á Vestfjörðum.

Þorgerður, sem kölluð er Dolla, og öll þau sem tilnefnd voru sem sjálfboðaliðar ársins í hverjum landsfjórðungi eiga svo sannarlega skilið að hampa titlinum. Dolla hefur í áraraðir verið einn af burðarásum í íþróttalífi svæðisins.

Haustið 2007 tók hún, ásamt fleiri eldhugum, þátt í að byggja upp starf yngri flokka í blaki og hefur síðan þá verið ómetanleg í þróun og uppbyggingu íþróttarinnar – bæði hjá Vestra og Stefni.

Dolla er óþreytandi í öllu sem snýr að starfinu. Hún hefur tekið þátt í stjórnar- og nefndarstörfum, sinnt þjálfun, dómgæslu, fararstjórn, mótahaldi, fjáröflunum og ýmsum öðrum verkefnum sem skipta miklu máli fyrir framgang greinarinnar. Hún er jafnframt einn af lykilleikmönnum sinna liða og hefur ávallt verið reiðubúin að leggja hönd á plóg, hvar sem þörfin er mest.

Það er aldrei leiðinlegt í kringum Dollu. Hún býr yfir einstökum áhuga, jákvæðu hugarfari og ótrúlegum drifkrafti sem smitar út frá sér og gerir öll verkefni auðveldari og skemmtilegri. Hún er ekki aðeins frábær félagi – hún er einnig góður og traustur vinur.

 

Á myndinni hér að ofan má sjá þegar Páll Janus Þórðarson, annar tveggja svæðisfulltrúa á Vestfjörðum, hitti Dollu og afhenti hana viðurkenninguna.