Fara á efnissvæði
08. júlí 2024

Strandamaðurinn sterki hlaut gullmerki UMFÍ

Kúluvarparinn Hreinn Halldórsson hlaut gullmerki UMFÍ á sambandsþingi Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) í apríl. Hreinn vakti snemma eftirtekt vegna árangurs í íþróttinni og gaf Ómar Ragnarsson honum viðurnefnið „Strandamaðurinn sterki.“

Haukur Valtýsson, fyrrverandi formaður UMFÍ, afhenti Hreini gullmerkið og hélt tölu um árangur hans. 

Haukur var gestur UMFÍ á þinginu og hélt erindi þar sem hann ræddi um að samvinna og samstarf væru mikilvæg í íþróttastarfi, sérstaklega á jafn dreifðu svæði eins og starfsfsvæði UÍA. Hann sagði nýjar svæðisstöðvar, sem verið er að setja á laggirnar, viðbót við það starf fyrir fyrir er á svæðinu og muni þær samræma starfið. Stöðvarnar eru settar á laggirnar fyrir atbeina UMFÍ, ÍSÍ og ríkisins, sem leggja til fjármagn til þeirra. Eitt af hlutverkum stöðvanna er að auka þátttöku barna og unglinga í íþróttum, ekki síst barna af erlendu bergi brotnu og börnum með sérþarfir. 

Haukur lagði jafnframt áherslu á að íþrótta- og ungmennafélagshreyfingin taki forystu í eflingu lýðheilsu. Kom hann m.a. inn á nikótínnotkun og hvatti hann tl verkefna sem sporni gegn notkun nikótínpúða.

 

Meira um Hrein Halldórsson

Hreinn var kjörinn í fyrsta sinn af nokkrum íþróttamaður ársins 1976 og keppti á Ólympíuleikunum í Montreal sama ár.  Hreinn varð Evrópumeistari innanhúss í San Sebastian á Spáni árið 1977 en þar kastaði hann kúlunni 20,59 metra. Þetta er hans fræknasta afrek enda varð hann um leið fyrsti Íslendingurinn til að vera Evrópumeistari í frjálsum íþróttum í 27 ár. Hann sló fjölda meta sama ár. 

Hreinn lagði kúluna á hilluna árið 1982. Hann hefur búið á Egilsstðum í mörg ár og haft þar umsjón með íþróttamannvirkjum á Egilsstöðum og í Fellabæ. Hreinn tekur virkan þátt í íþróttaviðburðum UÍA og var meðal annars sjálfboðaliði á Landsmóti UMFÍ 50+ þegar það var haldið í Neskaupstað sumarið 2019.

 

Viðurkenningar

Fjöldi viðurkenninga og verðlauna var afhentur á þingi UÍA. Glímukonan Kristín Embla Guðjónsdóttir frá íþróttafélaginu Val var valin íþróttamaður UÍA annað árið í röð. Hún er Freyjumenshafi í þriðja sinn í Íslandsglímunni og var líka valin íþróttamaður Fjarðabyggðar. 

Mynd af henni má sjá hér að neðan.

Fleiri viðurkenningar má sjá á heimasíðu UÍA.

 

Formaður áfram

Nokkrar breytingar urðu á stjórn UÍA. Benedikt Jónsson gaf kost á sér áfram en úr stjórn hurfu þau Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir og Björgvin Stefán Pétursson.

Önnur í stjórn gáfu kost á sér áfram. Það eru þau Þórunn María Þorgrímsdóttir, Guðjón Magnússon auk Þuríðar Ragnheiðar Sigurjónsdóttur og Kristófers Einarssonar sem koma inn.