Fara á efnissvæði
24. mars 2018

Skrópa í skóla til að mæta á ráðstefnu fyrir ungt fólk

„Það er yfirþyrmandi meiri pressa nú en áður að mæta í tíma. Mætingareglum var breytt um áramótin. Við þurfum vottorð til að sleppa tímum, erfitt að fá veikindafrí og hart tekið á mætingu. Við verðum stressuð á því. Við fengum til dæmis ekki samþykkt leyfi til að fara á ráðstefnuna núna og urðum að skrópa,“ segir Berglín Sólbrá Bergsdóttir, 17 ára formaður Ungmennaráðs Reykjanesbæjar.

Hún mætti ásamt um 60 öðrum ungmennum á aldrinum 14 – 25 ára frá ungmennaráðum víða um land á ungmennaráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði sem Ungmennaráð UMFÍ stóð fyrir á fimmtudag og föstudag á Hótel Borealis að Efri-Brú í Grímsnes- og Grafningshreppi. Yfirskrift ráðstefnunnar var Okkar skoðun skiptir máli.

Á síðasta degi ráðstefnunnar var pallborð með gestum. Í pallborði voru Salvör Nordal, umboðsmaður barna, þingmaðurinn Vilhjálmur Árnason, Arna Ír Gunnarsdóttir, sem á sæti í sveitastjórn Árborgar, Gunnar Þorgeirsson, sveitarstjóri í Grímsnes- og Grafningshreppi, og Sveinn Birgisson úr ungmennaráði UMFÍ.

Á ráðstefnunni ræddu gestir ýmis mál sem brenna á ungu fólki í dag og leituðu lausna sem gagnast bæði í dag og til framtíðar.

 

Félagsstarf hefur dregist saman

Margir á ráðstefnunni gagnrýndu að framhaldsskóli hafi verið styttur úr fjórum árum í þrjú án samráðs við nemendur. Stytting hafi valdið því að nemendur í framhaldsskólum hafi ekki tíma til að sinna hugðarefnum sínum, þátttaka í félagsstarfi hafi dregist mikið saman og þyki mörgum erfitt að stunda skipulagt frístundastarf og íþróttir meðfram námi.

Dæmi eru um að ungmennin séu í skóla frá klukkan 8 að morgni til 17 og komi of þreytt heim úr skóla síðdegis til að sinna fleiru. Til viðbótar við mikla vinnu og minni samneyti við jafnaldra sökum álags er mikil krafa á nemendur að þeir standi sig vel á prófum. Þetta hefur leitt til þess að kvíði og þunglyndi hefur aukist í röðum nemenda. Ungmennin voru sannfærð um að fleiri þurfi nú á hjálp geðlækna og sálfræðinga að halda en þegar nám í framhaldsskóla var fjögur ár.

 

Vilja kennslu í núvitund og jákvæðri sálfræði

Ungmennin sendu í lok ráðstefnu frá sér ályktun þar sem fram kemur að auka þarf forvarnir í geðheilbrigðismálum og fræðslu um geðræn vandamál. Á meðal forvarna í grunn- og framhaldsskólum eru námskeið í jákvæðri sálfræði, núvitund í skólum og hugleiðsla sem getur styrkt sjálfsmynd nemenda. Að sama skapi þarf að bæta aðgengi nemenda að sálfræðiþjónustu í skólum landsins.

 

Ályktunin er svohljóðandi

Ungmennum á Íslandi finnst vegir landsins vera í niðurníðslu. Bæta þarf samgöngur um allt land og veita sveitarfélögum heimild til að laga vegi sem heyra undir Vegagerðina. Þar má nefna Grindavíkurveginn þar sem að mörg alvarleg slys og banaslys hafa orðið. Ungt fólk notar samgöngur daglega, hvort sem þau séu farþegar eða ökumenn og viljum við öll að þau komist heilu og höldnu til náms eða í vinnu. Samgöngubætur má fjármagna með komugjöldum á erlenda ferðamenn, þar sem þeir eru orðnir stór hluti þeirra sem nota vegakerfi landsins. Lítils háttar komugjald þarf til að fjármagna endurbætur á vegakerfinu.

Kvíði og þunglyndi hefur aukist mikið í röðum ungmenna á grunnskóla- og framhaldsskólaaldri.

Stytting framhaldsskóla úr fjórum árum í þrjú og minni tími nemenda til að sinna félagsstörfum er að stórum hluta orsakavaldur að mati ungmenna. Það þarf að festa það í lög að það séu starfandi sálfræðingar í öllum grunn- og framhaldssólum á landinu. Einnig vantar betri forvarnir í geðheilbrigðismálum og gætu starfandi skólasálfræðingar séð um þá fræðslu.

Þátttakendur ráðstefnunnar ræddu mikið um lækkun kosningaaldurs niður í 16 ár í sveitastjórnakosningum. Lýðræðisfræðsla og stjórnmálafræðsla þarf að vera aukin í grunn- og framhaldsskólum og nauðsynlegt er að gera heimasíðu Alþingis aðgengilegri og skiljanlegri.

 

Ungmenni skipulögðu allt

Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði hefur verið haldin árlega frá árinu 2009. Ungmennaráð Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) stendur að ráðstefnunum og skipuleggur hana, allt frá fundum til kvöldskemmtana. Ráðstefnugestir í vikunni voru til fyrirmyndar. Skemmtanir voru áfengislausar, tóbak var ekki notað, hvorki reyk- né munntóbak og notaði enginn rafrettur.