Sigurbjörn Árni er nýr Matmaður UMFÍ

Skólameistarinn og íþróttalýsandinn Sigurbjörn Árni Arngrímsson er matmaður UMFÍ. Matmaðurinn er útnefndur á Sambandsþingum UMFÍ, sem haldin eru annað hvert ár.
Sigurbjörn var þingfulltrúi þar og lét til sín taka á þinginu, bæði í ræðum undir störfum þingsins og á matmálstímum svo eftir var tekið.
Birna Baldursdóttir, varaformaður Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA), tilkynnti valið á matmanninum á sambandsþinginu á laugardagskvöld. Hún hampaði titlinum þegar þingið var haldið árið 2023.
Bað kokkinn afsökunar
Birna sagði Sigurbjörn vel að titlinum kominn. Hún hafi fengið sendar upptökur af honum hringja í veitingastaði kvöldið áður því honum hafi fundist kvöldmaturinn ekki nægilega vel út í látinn. Í forrétt var ljúffeng humar- og grjótkrabbasúpa með hörpuskel, tígrisrækjum og kryddum en í aðalrétt var lambafillet, með jarðskokkamauki, kartöflum og ristuðu brokkólíi.
Þetta dugði ekki Sigurbirni Árna, hann var svangur og þurfti meira en áttaði sig ekki á því að hann gat beðið um ábót. Hann hafi því keypt sér kjúklingaborgara og franskar kartöflur.
Birna lýsti því jafnframt hvernig Sigurbjörn Árni hafi sett svo mikið kaffi í bolla sinn í morgunmatnum að sullast hafi úr honum og fagnað því að geta skammtað sér sjálfur í hádegishlaðborðinu.
„Hann stakk líka upp í sig sælgæti 574 sinnum og vegur samt bara 55 með skólatösku,“ sagði Birna í lýsingu sinni. Hún tók reyndar fram að Sigurbjörn hafi ekki klárað kjúklingaborgarann, því hún hafi tekið hann frá með nokkrum frönskum sem hún afhenti Sigurbirni í tilefni þessa.
Sigurbjörn þakkaði fyrir útnefninguna en var síðan hvattur til að kalla fram kokka og matreiðslufólk hótelsins og biðjast afsökunar á framferði sínu, sem hann gerði.
Hefð er fyrir því síðan árið 1979 á þingum UMFÍ að velja matmann UMFÍ. Farandgripurinn er útskorinn askur sem Héraðssambandið Skarphéðinn (HSK) gaf á sínum tíma. Hann er afhentur í lok síðustu máltíðar á þingum UMFÍ þeim þingfulltrúa eða stjórnarmanni UMFÍ sem að mati dómnefndar er þess verðugastur að geyma gripinn til næsta þings. Við valið er m.a. horft til framgöngu í matar- og kaffitímum þingsins, beitingu hnífapara, stíls, borðsiða o.fl. Dómnefnd er skipuð forseta þingsins og fyrrverandi matmanni.
Á myndinni að ofan má sjá Sigurbjörn Árna með Birnu Baldursdóttur. Hann heldur á askinum sem fylgir matmanni UMFÍ til næstu tveggja ára. Í bréfpokanum er afgangur af kjúklingaborgaranum og frönsku kartöflunum sem Sigurbjörn náði ekki að torga.
Að neðan er Sigurbjörn Árna ásamt konu sinni og þingfulltrúum Héraðssambands Þingeyinga að gæða sér á kjúklingaborgurum eftir að hafa snætt humarsúpu og lambafilleti. Eins má sjá hann taka til máls á þinginu og hampa kokkum og þjónum hótelsins, eftir að hann fékk viðurkenninguna.


