Fara á efnissvæði

30. júlí 2023

Samkomutjöldin rísa á Sauðárkróki

Félagar úr Björgunarsveitinni Skagfirðingasveit og ungmennafélagar frá Neista á Hofsósi og Ungmennasambandi Skagafjarðar reistu á Sauðárkróki í dag tvö stærstu tjöldin sem einkenna Unglingalandsmót UMFÍ. Þetta eru skemmti- og samkomutjöld þar sem tónleikar fara fram á hverju kvöldi á meðan mótinu stendur um næstu verslunarmannahelgi.

Tjöldin eru stór og þung og eru geymd í gámunum sem fluttir voru á mótasvæði Unglingalandsmótsins í gær. Lítinn lyftara þurfti til að flytja tjöldin úr gámnum og fjöldi fólks kom að því að reisa tjöldin og allar súlurnar sem halda þeim upp.

Með félögunum unnu þau Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ, og Pálína Ósk Hraundal, verkefnastjóri mótsins, og segja þau uppsetninguna hafa gengið vel.

Á meðal þeirra sem koma fram á tónleikunum öll kvöldin á meðan mótinu stendur eru Emmsjé Gauti, Magni, sem kemur brakandi ferskur af Bræðslunni, Guðrún Árný, Danssveit Dósa, DJ Heisi, Jón Arnór og Baldur, Herra Hnetusmjör og Valdís ásamt öðrum.

 

Átta hleðslustöðvar á tjaldsvæðinu

Afar gott er að halda mót eins og Unglingalandsmótið á Sauðárkróki enda stutt í öll íþróttasvæði, íþróttahús, sundlaug og verslun auk þess sem tjaldsvæði mótsins, sem er á Nöfunum ofan við tjaldsvæðið. Þar hefur verið komið fyrir öflugu rafmagnskerfi fyrir fjölskyldur sem dvelja á mótinu í ferðahýsum og tjöldum. Jafnframt er unnið að því að setja upp átta hleðslustöðvar í samstarfi við HS Orku svo foreldrar þátttakenda mótsins geti hlaðið rafmagnsbíla sína um helgina.

Opið er fyrir skráningu í greinar á Unglingalandsmót UMFÍ fram á mánudagskvöldið 31. júlí.

Allar upplýsingar um mótið og skráning hér

Skrá á mótið og í greinar

 

Hér að neðan má sjá verkefnið frá því tjöldin voru flutt úr gámi og reist á mótssvæðinu.