Fara á efnissvæði
01. janúar 2026

Rósa sæmd fálkaorðu fyrir sjálfboðastarf

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi Rósu Marinósdóttur hinni íslensku fálkaorðu á Bessastöðum í dag, Nýársdag. Rósa var á meðal þeirra fjórtán einstaklinga sem sæmd voru heiðursmerkinu.

Rósa, sem er búsett á Hvanneyri, hlaut fálkaorðuna fyrir sjálfboðastörf í þágu íþróttaiðkunar ungs fólks um allt land og framlag til samfélagsmála í heimabyggð. Hún hefur unnið að mörgum viðburðum undir merkjum Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB) og fyrir sambandið.

Rósa hefur ásamt Davor Purusic verið fyrirsæta vitundarvakningar Mennta- og barnamálaráðuneytis og íþróttahreyfingarinnar þar sem vakin var athygli á mikilvægi sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Herferðin gengur undir nafninu „Alveg sjálfsagt!“

Rósa hefur verið fastagestur á mörgum viðburðum UMFÍ, þar á meðal á Unglingalandsmótum UMFÍ. Mótið hefur nokkrum sinnum verið haldið í Borgarnesi. Eftir að mótið fór þar fram árið 2016 var Rósa heiðruð vegna skeleggrar framgöngu sem sjálfboðaliði. Öll fjölskylda hennar vann sömuleiðis við mótið.

Rætt var við Rósu í tilefni af því og þar sagði hún áhuga á sjálfboðaliðastarfi ganga í erfðir.

„Mér finnst æðislegt að vera sjálfboðaliði. Ég kynntist Ungmennafélaginu Reyni þegar ég var lítil í sveit á Stóru-Hámundarstöðum á Árskógsströnd og æðsti draumur minn var að komast í ungmennafélag,“ sagði hún.

Í viðtalinu á umfi.is var rifjað upp að hún hefur verið sjálfboðaliði undir merkjum Ungmennafélagsins Íslendings og Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB) síðan árið 1980 eða í samfleytt 37 ár. Tekið var eftir því á Unglingalandsmótinu í Borgarnesi hversu ötul hún var á frjálsíþróttavellinum og stýrði þátttakendum af krafti, þá sem endranær og gekk hún rúma 20 kílómetra á dag alla mótsdagana.

Myndin hér að ofan er fengin af vefsetri embættis Forseta Íslands og myndina tók Sigurjón Ragnar. Hin myndin sýnir Rósu að störfum á Unglingalandsmóti UMFÍ í Borgarnesi. 

Hér er hægt að lesa allt viðtalið við Rósu á umfi.is.

Rósa: „Mér finnst æðislegt að vera sjálfboðaliði“