Opið fyrir skráningu á Unglingalandsmót

Opið er fyrir skráningu á Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Þetta verður heljarinnar stuð á þessari fjölskyldu- og íþróttahátíð sem fram fer á hverju ári og er að þessu sinni haldið með Ungmenna- og íþróttasambandi Austurlands (UÍA) og sveitarfélaginu Múlaþingi.
Á mótinu eru um 22 íþróttagreinar, hellingur af afþreyingu, allskonar fjör og skemmtilegheit. Þátttökugjald er aðeins 9.900 krónur og fer skráning fram á umfi.is.
Opið er fyrir skráningu út 28. júlí næstkomandi.
Þetta eru íþróttagreinarnar
Borðtennis – fimleikar – frisbígolf – frjálsar íþróttir – glíma – golf – grasblak – grashandbolti – hestaíþróttir – hjólreiðar – knattspyrna – krakkahreysti – kökuskreytingar – körfubolti – motocross – pílukast – rafíþróttir – skák – stafsetning – sund og upplestur.
Með miða á mótið fylgir aðgangur að keppnisgreinum fyrir einn þátttakanda á aldrinum 11 - 18 ára, aðgangur að tjaldsvæði fyrir alla fjölskylduna, alla afþreyingu, tónleika, í sund og fjör fyrir litla og stóra fætur, ömmur, afa og frænkur sem ekki eru á keppnisaldri. Aðeins þarf að greiða sérstaklega fyrir rafmagn og er það gert í gegnum skráningarkerfi mótsins. Verðmiði fyrir rafmagnið liggur fyrir á næstu dögum.
Dagskrá mótsins er afar fjölbreytt:
Búðu til lið með skemmtilegu nafni
Þátttakendur í liðagreinum geta búið til sín eigin lið í skráningarkerfinu. Þátttakendur þurfa ekki að vera frá sama íþróttahéraði eða sama félagi heldur getur hver sem er sett saman sitt eigið lið.
Ekki er hægt að ganga frá skráningu á heilu liði, hver og einn þarf að ganga frá sinni skráningu. Aðeins einn (sá sem er fyrstur að skrá) þarf að stofna nafn á liði. Þegar búið er að stofna nafn á liði geta aðrir þátttakendur valið það nafn.
Þeir þátttakendur sem ekki eru í liði eða í hópi sem ekki nær að mynda lið verður raðað í lið með öðrum þátttakendum. Ef þátttakanda vantar liðsfélaga er heppilegast að skrá með þessum hætti: „Án liðs".
Margir búa til skemmtileg nöfn á liðin sín. Nöfn eins og Bónusgrísirnir, Bakkabræður, Rothöggið og svo má lengi telja.
Eins hafa mörg lið búið til sína eigin búninga. Það er auðvitað engin krafa frá mótshöldurum en gefur mótinu lit og liðunum sjálfum sérstaklega skemmtilegan blæ.
Hvernig skrái ég mig?
Við skráningu velur þú fyrst þátttökugjald á Unglingalandsmót UMFÍ eftir því hvaða íþróttahéraði þú tilheyrir á landinu. Einnig er hægt að skrá sig án héraðs / félags.
Athugið að sum íþróttahéruð niðurgreiða þátttökugjald að hluta eða öllu leyti fyrir þátttakendur á sínu svæði.
Að þessu loknu velurðu greinar.
Á sama stað hakið þið í kaup á rafmagni. Við látum ykkur vita um leið og verðmiðinn verður ljós.


