Fara á efnissvæði
19. nóvember 2025

Ómetanlegt þegar forsvarsfólk íþróttahéraða hittist

„Það er ómetanlegt fyrir íþróttafélögin að hittast, kynnast og eiga opið spjall – slíkir fundir styrkja tengsl og byggja undir mikilvægi samvinnu í íþróttahreyfingunni. Þrátt fyrir að félögin starfi í mismunandi greinum kom skýrt fram að við glímum flest við sömu áskoranir og gott er að sjá áhuga íþróttahéraðanna,“ segir Berglind Sveinsdóttir, formaður hestamannafélagsins Sleipnis á Selfossi.

Hún var á meðal þátttakenda á sögulegum samráðsfundi forsvarsfólks íþróttahéraða á Suðurlandi á Stracta Hotel á Hellu síðastliðinn föstudag.

Fundinn skipulögðu þær Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir og Rakel Magnúsdóttir, svæðisfulltrúar íþróttahéraðanna á Suðurlandi, í samráði við HSK, USVS og ÍBV.

Fundinn sóttu u.þ.b. 50 manns frá íþróttahéruðum á Suðurlandi, formenn og framkvæmdastjórar innan HSK, ÍBV og USVS. Þar að auki sátu fundinn gestir, sem sumir fluttu erindi. Þar á meðal voru þau Willum Þór Þórsson, forseti ÍSÍ, og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

Rakel Magnúsdóttir, einn af skipuleggjendum fundarins, segir hann hafa verið bæði fræðandi og hvetjandi. Þar hafi líka gefist tilefni til að heiðra og hampa sjálfboðaliðum sem leggja mikið á sig í starfi hreyfingarinnar.

„Ég er svo glöð hvað allir voru samstíga og ánægðir á fundinum. Þarna hittist fólk í fyrsta sinn og ræddi saman og ljóst að fólk upplifir íþróttahéruðin með mismunandi hætti og hefur mismikla vitneskju um starfsemi þeirra,“ segir hún og bætir við að fljótlega eftir fundinn hafi hún fengið fyrirspurn frá einum þátttakenda, sem viðraði hugmynd sem gæti orðið átaksverkefni fyrir allt Suðurlandið. 

„Þetta sýnir að við eigum ekki að vinna í litlum sellum heldur saman, því saman erum við sterkari. Mögulega hefði þessi einstaklingur aldrei haft orð á þessu nema út af fundinum okkar?”

 

Mikilvægt að fólk vinni saman

Þess var gætt að fundurinn var tiltölulega stuttur, frá klukkan 15:00 til 18:00. Á dagskránni voru fjölbreytt erindi. Kristín Skjaldardóttir, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, sagði frá starfi embættisins og knattspyrnuþjálfarinn og markþjálfarinn Halldór Björnsson, flutti erindi sem bar með sér að afreksfólk fæðist alls staðar. Þrátt fyrir að heitið vísaði í afreksfólk en fjallaði þó öðru fremur um mismunandi hæfileika fólks, íþróttir fyrir alla og næstum því um ungmennafélagsandann.

Að lokum fjallaði Magnús Ragnarsson, formaður Skotfélagsins Skyttur og ritari Skotíþróttasambands Íslands, um hagnýt ráð fyrir íþróttafélög.

Eftir að erindum lauk skiptust fundargestir í vinnuhópa og ræddi fólk þar um áskoranir, tækifæri og þjónustu íþróttahéraðanna, auk þess sem sjálfboðaliðar á fundinum fengu sérstaka athygli. Kvöldið endaði á kvöldverðarhlaðborði sem mökum þátttakenda var boðið til. Þar ræddi fólk saman og styrkti tengslin frekar.
Fundur sem opnaði á samstarf

Samráðsfundurinn opnaði nýjar dyr fyrir samstarf milli félaga og héraða auk þess sem hann var kjörinn vettvangur til að ræða áskoranir og framtíðarmöguleika í samstarfi.

„Samstarf og samráð mun aukast,“ heldur Rakel áfram. „Við þurfum að skoða hvaða áskoranir eru helst í gangi og hvað við getum farið sameiginlega í á öllum svæðum – og lært hvert af öðru. Við erum alltaf að læra, hvernig sem á það er litið,“ segir Rakel og telur þetta geta markað upphaf að enn fleiri fundum og meira samstarfi íþróttahéraða.

„Þegar fólk hefur hist einu sinni þá verða öll samskipti svo miklu auðveldari. Þetta breytir öllu samstarfi og hreyfingunni. Ég er rosa spennt fyrir því sem getur orðið og þess vegna er svo gott að finna að fólk nýtir tengingarnar og meðbyrinn eftir fundinn og er farið að heyra hvert í öðru, leita ráða, deila upplýsingum og spegla sig.“

Nú tekur við úrvinnsla úr vinnuhópunum og fá þátttakendur samantektir sendar sem fólk getur unnið úr hvert á sínum stað með aðstoð íþróttahéraðanna og okkar svæðisfulltrúanna.

 

Ómetanlegt að eiga opið spjall

Berglind hjá hestamannafélaginu Sleipni segir fund sem þennan skipta miklu máli.

„Það er ómetanlegt fyrir íþróttafélögin að hittast, kynnast og eiga opið spjall – slíkir fundir styrkja tengsl og byggja undir mikilvægi samvinnu í íþróttahreyfingunni. Þrátt fyrir að félögin starfi í mismunandi greinum, kom skýrt fram að við glímum flest við sömu áskoranir og gott er að sjá áhuga íþróttahéraðanna. Fyrirlestrarnir voru einstaklega áhugaverðir. Kynning Kristínar hjá samskiptaráðgjafa var mjög góð og hún kynnti námskeið sem við hjá Sleipni munum klárlega skoða nánar. Fyrirlestur Halldórs Björnssonar, markþjálfa, var ekki aðeins fræðandi heldur einnig skemmtilegur – Halldór er lifandi karakter með góða frásögn og mikla orku sem hélt öllum við hlustir, fólk hefði getað hlustað á hann endalaust því hann gaf mikinn innblástur og hvatningu. Vinnan í vinnuhópunum sýndi enn betur hversu sameiginlegar áskoranirnar eru, sérstaklega varðandi framboð og álag á sjálfboðaliða. Þetta var frábært tækifæri til að skapa tengsl og vettvang fyrir opið spjall. Ég hefði gjarnan viljað hafa lengri tíma fyrir hópavinnuna.“

 

Hér að neðan má sjá myndir frá fundinum.