Fara á efnissvæði
04. september 2023

Ók í þrjá tíma til að hlaupa með forsetanum

„Mig langar svo að segja fólkinu mínu að ég hafi hlaupið með forsetanum. Það er mjög merkilegt að geta það og hafa gert það,‟ segir Joanna Pietrzyk-Wiszniewska. Hún sá auglýsingu um Forsetahlaup UMFÍ á Facebookog langaði mikið að taka þátt í hlaupinu þegar það fór fram á Patreksfirði á laugardagsmorgun. 

Joanna, sem er frá Kraká í Póllandi, hefur verið búsett í Hnífsdal síðastliðin níu ár. Hún lagði það því á sig að leggja af stað heiman að frá sér klukkan sjö á laugardagsmorgun og aka í um þrjár klukkustundir til að ná í hlaupið, sem hófst rúmlega tíu. Joanna hljóp 2,5 kílómetra í hlaupinu með fjölda fólks úr Vesturbyggð, Tálknafirði og víðar. Fjöldi fólks frá Súðavík og Flateyri tók líka þátt. 

Joanna viðurkennir að þetta hafi verið svolítill sprettur að keyra enda hafi hún farið aftur heim að hlaupi loknu.

Hún segir hlaupið hafa verið skemmtilegt. En þetta var líka hennar fyrsta hlaup.

„Ég hef gengið með göngustöfum í Hnífsdal, Bolungarvík og Ísafirði. En ég hef aldrei áður hlaupið. Þetta var mjög skemmtilegt,‟ segir hún og lagði af stað aftur heim til Hnífsdals um klukkustund síðar að hlaupi loknu.  

 

10% bæjarbúa hljóp

Um 70 manns tók þátt í Forsetahlaupi UMFÍ á Patreksfirði, allt frá kornabörnum og fjölskyldum sem hljóp með barnavagna og einstaklingar á öllum aldri. Gríðarlega góð stemning var í hlaupinu sem fór fram í góðum meðbyr og mótvindi og svolitlum skúr. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni hlupu þátttakendur í 15 metrum á sekúndu.

Sannast sagna var óvíst með hlaupið fram að hlaupadegi enda hávaðarok á sunnanverðum vestfjörðum á föstudag og afleit veðurspá. Vind tók að lægja nokkur strax á hlaupadeg en í stað þess brast á með skúrum.

Ásgeir Sveinsson, framkvæmdastjóri Héraðssambandsins Hrafna-Flóka, segir fólk á svæðinu í skýjunum með góða þátttöku. Fjöldinn jafngildir því að um 10% af íbúum Patreksfjarðar hafi tekið þátt í því. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hljóp 5 kílómetra hring. Ásgeir tók síðustu 2,5 kílómetrana með honum.

Ásgeir segir ljóst að veðurguðirnir hafi verið með hlaupurum í liði enda hafi ræst úr veðrinu á meðan hlaupararnir sprettu úr spori.