Fara á efnissvæði

01. nóvember 2023

Ný tækifæri fyrir íþróttafræðinema

„Íþróttafræðinemum munu skapast ný tækifæri í námi sínu hér í HÍ með að öðlast færni við afkastagetu mælinga og verða dýrmætari starfskraftar að námi loknu,“ segir Þórdís Lilja Gísladóttir, forseti deildar Heilsueflingar íþrótta- og tómstunda við Háskóla Íslands (HÍ).

Hún opnaði í gær með formlegum hætti rannsóknarstofu í íþrótta- og heilsufræðum skólan og fjölda nýrra rannsóknartækja sem hún telur stórauka möguleika til mælinga og rannsókna á líkamlegu atgervi íþróttafólks og almennings. Rannsóknarstofan er í Laugardalshöll.

Þórdís benti á að hingað til hafi tækjakosturinn hamlað mögulegum íþróttarannsóknum. Mikilvægar rannsóknir um heilsu og líðan þjóðarinnar hafi fram til þessa verið unnar af mikilli eljusemi með takmarkaðan búnað.

„ Það er ósk mín að þetta framfaraskref sem hér er stigið í dag geti orðið aflvaki í íþróttavísindum til eflingar á íþróttastarfi og lýðheilsu þjóðarinnar,“ sagði Þórdís.  

Fjöldi fólks mætti við opnun rannsóknarstofunnar og margir fluttu ávarp. Þar á meðal voru dr. Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ og dr. Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir, , forseti Menntavísindasviðs skólans, Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, og Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ, sem flutti ávarp um nýjar áherslur og stefnu í afreksmálum. Óskar Þór Ármannsson, teymisstjóri í Mennta- og barnamálaráðuneytinu, flutti jafnframt ávarp í stað ráðherra.

Til viðbótar kynnti og sýndi dr. Milos Petrovic, forstöðumaður rannsóknarstofuna tækin og tólin og sagði gestum frá því hvert markmiðið er með þeim.

 

Myndir hér með umfjölluninni tók Gunnar Sverrisson fyrir Háskóla Íslands og fær UMFÍ að birta þær.