Fara á efnissvæði
11. október 2025

Klara og Ómar sæmd Gullmerki UMFÍ

Þau Klara Bjarnadóttir, formaður Ungmennafélags Grindavíkur, og Ómar Bragi Stefánsson voru sæmd Gullmerki UMFÍ á Sambandsþingi UMFÍ í gær. Ómar Bragi hlýtur Gullmerkið fyrir sjálfboðaliðastarf sitt fyrir knattspyrnudeild Tindastóls á Sauðárkróki.

Meira um Klöru

Það er ólíklegt að Klöru Bjarnadóttur hafi órað fyrir því sem fram undan var þegar hún var kosin formaður Ungmennafélags Grindavíkur árið 2021. Kona hafði ekki vermt formannsstólinn frá árinu 1978 og er Klara önnur konan til að gera það. Hún hafði áður skilað af sér frábæru starfi sem formaður sunddeildar Ungmennafélags Grindavíkur.

Klara og sú stjórn sem tók þarna við hafði fengið nasasjón af hamförunum. Eldgos hófst í Fagradalsfjalli í mars árið 2021 en stjórnin var kosin í júní sama ár. En síðan hætti ekki að gjósa og eru þau nú orðin tólf talsins. Óhætt er að segja að þrettánda gosið sé yfirvofandi.
Í kjölfar rýmingar Grindavíkur í nóvember 2023 fékk stjórn UMFG allt íþróttastarfið í fangið. Iðkendur tvístruðust út um allt. En samt hélt UMFG félaginu saman. Íþróttahreyfingin, með Klöru í stefninu, sneri bökum saman til að hjálpa Grindvíkingum. Þótt enn sé gosórói á Reykjanesi heldur starf UMFG enn áfram.

Meira um Ómar Braga

Ómar Bragi Stefánsson hefur um 20 ára skeið stýrt mótum UMFÍ, Unglingalandsmóti UMFÍ og Landsmótum UMFÍ 50+ ásamt öðru. Hann var kjörinn í stjórn Tindastóls árið 1974 þegar hann var 16 ára gamall. Leiðir Ómars og félagsins hafa legið saman upp frá því og hefur hann sagt knattspyrnudeild Tindastóls vera sem sitt fjórða barn.

Vegur Ómars óx innan Tindastóls í áranna rás enda sat hann svo til samfleytt í stjórninni frá 1974 til ársins 2017, eða í 43 ár. Þar af var hann formaður í 30 ár.

Ómar hlaut starfsmerki UMFÍ árið 1998 fyrir störf sín í þágu Tindastóls.