Gyða endurkjörin formaður ÍA

Gyða Björk Bergþórsdóttir var endurkjörinn formaður Íþróttabandalags Akraness (ÍA) á 81. Ársþingi bandalagsins sem fram fór í byrjun mánaðar.
Breytingar urðu á stjórn ÍA. Tómas S. Kjartansson er nýr varaformaður og Magnús Guðmundsson og Brynja Kolbrún Pétursdóttir eru ný í stjórn. Þá er Hannibal Hauksson nýr varamaður í stjórn. Þingið var vel sótt og dagskrá með hefðbundnum hætti.
Hallbera Eiríksdóttir, var gestur þingsins fyrir hönd UMFÍ. Hún flutti þar ávarp og sagði frá starfi svæðisstöðva og viðburða UMFÍ í sumar.
Hafsteinn Pálsson, formaður Heiðursnefndar ÍSÍ, ávarpaði þingið og veitti tvær heiðursviðurkenningar ásamt Hildi Karen Aðalsteinsdóttur úr stjórn ÍSÍ. Gullmerki ÍSÍ fékk Jón Þór Þórðarson fyrir ötult starf í þágu íþrótta á Akranesi og þá fékk Einar Örn Guðnason, fráfarandi formaður Kraftlyftingafélags Akraness, silfurmerki fyrir frábært starf í þágu íþrótta á Akranesi. ÍSÍ óskar heiðurshöfum innilega til hamingju.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá þingi ÍA.




