Fara á efnissvæði
05. desember 2025

Gunnar er sjálfboðaliði Austurlands 2025

Félagsmálatröllið Gunnar Gunnarsson var í dag dreginn út sem sjálfboðaliði ársins 2025 á Austurlandi. Gunnar fékk að gjöf viðurkenningarskjal og blóm og var mjög þakklátur fyrir niðurstöðuna og fannst það dásamlegt í jólatörninni.

Dagur sjálfboðaliðans er í dag og var í ár tekið upp á þeirri skemmtilegu nýbreytni hjá Svæðisstöðum íþróttahéraðanna að velja sjálfboðaliða ársins. Fyrirkomulagið var með þeim hætti að sjálfboðaliðar voru tilnefndir á flestum svæðum og var dregið úr innsendum tillögum. 

Með valinu er heiðrað það mikilvæga starf sem sjálfboðaliðar um allt land vinna, en án þeirra væri íþróttastarf víða einfaldlega ekki mögulegt. Sjálfboðaliðar gegna lykilhlutverki og eru ómissandi stoð í starfi íþróttahreyfingarinnar.

Gunnar sat í stjórn Ungmenna- og Íþróttasambands Austurlands (UÍA) um árabil, þ.m.t. formaður 2012-2021. Þá sat hann í stjórn UMFÍ 2009-2025, að frátöldu tímabilinu 2011-2013.

Gunnari er ákaflega annt um íþróttir. Hann lýsti því einhvern tíma sjálfur að hann væri svo hrifinn af fótbolta að hann hefur tekið að sér að dæma hann.

Gunnar er fyrirmynd annarra sjálfboðaliða og er vel að þessum titli kominn.