Gunnar endurkjörinn formaður UMSS

Guðmundur Sveinsson var sæmdur Gullmerki UMFÍ á 105. ársþingi Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS) á miðvikudag. Guðmundur hefur unnið sem sjálfboðaliði í stjórnum og nefndum hestamannafélaga í Skagafirði í meira en hálfa öld. Á sama tíma fengu þær Sigríður Fjóla Viktorsdóttir og Dagbjört Rós Hermundsdóttir starfsmerki UMFÍ.
Töluverð vinna á þinginu fór í þingtillögur, breytingar á lögum og reglugerðum.
„Við vorum að nútímavæða þau,“ segir Thelma Knútsdóttir, framkvæmdastjóri UMSS.
Á meðal þess var breyting á kosningu til formanns, sem framvegis verður kjörinn til tveggja ára í senn en ekki eins og verið hefur. Þá var ákveðið að kjósa meðstjórnendur til fjögurra ára í senn en á þann veg að tveir meðstjórnendur af fjórum geta haldið áfram og tvær hætt. Það kemur í veg fyrir að allir hætti á sama tíma.
Gunnar Þór Gestsson var endurkjörinn formaður UMSS og bauð enginn sig fram gegn honum.
Ágætis mæting var á þingið eða 50 fulltrúar af 65.
Meira um heiðranir
Gunnar Þór, sem jafnframt er varaformaður UMFÍ, hélt ávarp fyrir hönd stjórnar UMFÍ og veitti viðurkenningar og heiðranir.
Eins og áður sagði var Guðmundur Sveinsson sæmdur Gullmerki UMFÍ. Hann hefur unnið sem sjálfboðaliði fyrir hestamenn í Skagafirði í hálfa öld, fyrst fyrir Hestamannafélagið Léttfeta árið 1975 og síðan Hestamannafélagið Skagfirðing sem tók við af Léttfeta. Hann var í fyrrahaust sæmdur gullmerki Landssambands hestamanna fyrir störf sín.
Þá fengu þær Sigríður Fjóla Viktorsdóttir og Dagbjört Rós Hermundardóttir starfsmerki UMFÍ. Sigríður Fjóla hefur verið gjaldkeri UMSS um árabil og verið lengi sjálfboðaliði fyrir ungmennafélagið Smára í Varmahlíð.
Dagbjört Rós hefur stýrt sjoppu körfuknattleiksdeildar Tindastóls um árabil og mætt á alla leiki. Á sumrin vinnur hún fyrir Golfklúbb Sauðárkróks.
Meiri upplýsingar um þing UMSS
Fleiri myndir frá þinginu.

