Fara á efnissvæði
30. júlí 2022

Forseti Íslands: Unglingalandsmótið sparar ríkinu stórfé í forvörnum

„Hreyfing og keppni eru gulls ígildi en öllu má ofgera. Það bætir svo sannarlega ekki líkama og sál ef manni finnst stöðugt að maður sé ekki í nógu góðu formi, ekki nógu grannur, að maður fari ekki eins oft og öll hin í fjallgöngur, hjólatúra og þríþrautir, að ég tali nú ekki um að maður hafi ekki hlaupið Laugaveginn eins og annar hver vinur á Fésbók,‟ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Hann hélt þrumandi hressa ræðu við setningu Unglingalandsmóts UMFÍ á Selfossi í gærkvöldi og benti m.a. á að rannsóknir sýni að of mikið álag á unglinga getur hæglega aukið líkur á meiðslum og ekki síður valdið því að ánægja og tilhlökkun breytist í kvíða og kulnun. Þá sagði hann til lítils unnið því harkan skili ekki árangri.

 

Ungmennafélögin og hreyfing spara stórfé

Guðni, sem er verndari ungmennafélagshreyfingarinnar, sagði ræktun lýðs og lands, kjörorð UMFÍ, enn í fullu gildi. Þar haldist gildi hreyfingar og hollustu í hendur.

„Góð lýðheilsa er eitt mikilvægasta verkefnið í því velferðarríki sem við búum í og hana viljum við rækta hvern einasta dag. Þetta mót er svo sannarlega til þess fallið og glæsileg íþróttamannvirki hér í bæ vitna um vilja til þess að efla æskulýðsstarf, og lýðheilsu um leið,‟ sagði hann og benti á að það hafi kostað sitt.

„Ég leyfi mér samt að halda því fram að hér hafi verið sparað stórfé. Þetta mót er alls kyns forvörn á sinn hátt og við þurfum að huga betur að þeim þætti í þjóðfélaginu, ekki aðeins í þágu okkar sjálfra sem er nú nógu mikilvægt heldur líka fyrir ríkiskassann og misdigra sjóði sveitarfélaganna.

Því hefur verið haldið fram með gildum rökum að nú renni um 23% af útgjöldum á sviði heilbrigðismála í glímuna við til forvarna af ýmsu tagi. Drjúgur meirihluti fari hins vegar í  langvinna lífsstílstengda sjúkdóma,‟ sagði hann og benti á að öflug lýðheilsa snúist ekki um eilífan samanburð, eilíft álag og eilífa keppni við sjálfan sig og aðra.

 

Njótum á eigin forsendum

Guðni hélt áfram:

„Aðgerðir á sviði lýðheilsu eiga að snúast um jákvæða hvata og heilbrigt sjálfstraust án alls metings og monts. Gott lýðheilsustarf snýst um virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, listina að vilja reyna á sig en kunna líka að njóta hvíldar og þekkja sín takmörk að kunna að þakka fyrir góða heilsu þótt maður sé ekki vöðvabúnt eða fjallageit. Með öðrum orðum: Gott lýðheilsustarf snýst í raun um ungmennafélagsanda.

En góðir áheyrendur: Stundum er það svo að fólk hefur þann ágæta anda í flimtingum: Við erum ekki í einhverju ungmennafélagsdútli hérna, heyrist sagt við erum að æfa og keppa til sigurs. Við ætlum að vera best, við ætlum ekkert að gefa eftir, við fórnum öllu fyrir árangur,‟ sagði Guðni og benti á að rannsóknir sýni að of mikið álag á unglinga getur hæglega aukið líkur á meiðslum og ekki síður valdið því að ánægja og tilhlökkun breytist í kvíða og kulnun.

 

Ávarp Guðna má lesa í heild sinni á www.forseti.is