Fara á efnissvæði
11. október 2025

Formaður UMFÍ hvatti til samstarfs um íþróttalög

Hefja þarf samtal íþróttahreyfingarinnar við ríki og sveitarfélög um stefnumótun íþróttamála til framtíðar og útfærslu nýrra íþróttalaga, að sögn Jóhanns Steinars Ingimundarsonar, formanns UMFÍ.

„Nú höfum við tækifæri til að taka enn betur utan um íþróttahreyfinguna. Við þurfum öll að fara í þá vinnu og ræða hlutverk og ábyrgð allra þeirra sem að starfi hreyfingarinnar koma, útfæra það með nýjum íþróttalögum og skapa saman betra starfsumhverfi fyrir þau öll sem starfa í hreyfingunni. Það er varða á vegferð okkar - leiðin að betri íþróttahreyfingu og betra samfélagi,“ sagði hann í ávarpi við setningu Sambandsþings UMFÍ sem fram fer í Stykkishólmi. 

Þetta er með fjölmennari þingum UMFÍ, sem hefur stækkaði að umfangi síðustu ár. Nú eru öll íþróttafélög landsins aðilar að UMFÍ í gegnum íþróttahéruð þeirra, héraðssambönd og íþróttabandalög. Íþróttabandalög landsins hafa á síðastliðnum sex árum bæst í hóp sambandsaðila UMFÍ. Íþróttabandalag Vestmannaeyja (ÍBV) var síðasta bandalagið til að gera það og bættist í hópinn í vor. Fulltrúar ÍBV sitja þingið í fyrsta sinn.

Jóhann Steinar kallaði eftir sjónarmiðum þingfulltrúa um tillögur, hugmyndir að lausnum um það sem betur megi fara. 

„Með jákvæðum samskiptum og uppbyggilegri gagnrýni gerum við starf hreyfingarinnar okkar enn betra – Það er ungmennafélagsandinn í verki,“ sagði hann og hvatti til samstarfs á milli mismunandi hópa svo íþróttahreyfingin tali einni röddu.

 

Ávarp formanns UMFÍ í heild

Kæru þingfulltrúar og gestir!

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin á 54. Sambandsþing UMFÍ hér í Stykkishólmi - á sambandssvæði Héraðssambands Snæfellsness- og Hnappadalssýslu.

HSH – eins og við þekkjum það í dag, var stofnað 24. september árið 1922 og varð um leið sambandsaðili UMFÍ. Á stofnfundi Héraðssambandsins UMFS og H, eins og það nefndist á þessum tíma, voru þrjú félög og um hundrað félagar. Á sama tíma voru 4.000 ungmennafélagar á Íslandi. 

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum 103 árum sem liðin eru frá því að stórhuga og framsýnir leiðtogar unnu að uppgangi ungmennafélagshreyfingarinnar – í dag eru verkefnin önnur, fjölmennara samfélag og starfsemin umfangsmeiri enda hefur hlutverk íþróttahreyfingarinnar þróast í þá átt að verða einn af máttarstólpum samfélagsins. 

Saman höfum við sem samfélag gengið í gegnum sannkallaða umbreytingu á þessum langa tíma. Ég fullyrði að sú þróun hefur gert okkur sem hreyfingu sterkari og öflugri. En við eigum samt svo ótrúlega mikið eftir og mikið inni. Við höfum enn tækifæri til að eflast.

Í vor varð Íþróttabandalag Vestmannaeyja aðili að UMFÍ. Það markar sérstök tímamót því nú eru öll íþróttahéruð landsins í fyrsta sinn innan UMFÍ og þar með öll íþrótta- og ungmennafélögin. 

Ég býð fulltrúa ÍBV sérstaklega velkomna hingað á þingið og hvet ykkur öll til að nýta sambandsþingið til að tengjast, ræða við fólk,  deila hugmyndum, eignast fleiri vini og upplifa með því móti hinn eina sanna ungmennafélagsanda. 

Samstarf og samvinna eru lykilorðin á vegferð okkar. Þess vegna er afar ánægjulegt að sjá samstarfsaðila okkar hér með okkur, fulltrúa frá ÍSÍ, sérsamböndum og sveitarfélögum, frá embætti samskiptaráðgjafa í íþrótta- og æskulýðsstarfi, farsældarfulltrúa landshlutanna og fulltrúa Landsbjargar. 

Það er nefnilega þannig að þó svo að við berum öll mismunandi hatta og tökumst á við ólík hlutverk og verkefni þá eru áskoranirnar sambærilegar - og við náum alvöru árangri þegar við vinnum og stöndum saman.

Við verðum að halda áfram að byggja brýr á milli mismunandi hópa og ólíkra aðila. Saman þurfum við að forgangsraða verkefnum og tala einni röddu. Það er samfélaginu til heilla.

Á þingi okkar fyrir tveimur árum vorum við sammála um að hefja vegferð með breyttri úthlutun lottótekna og stofnun svæðisstöðva íþróttahéraða. Við sköpuðum saman vettvang til að ganga í takt. Hvern grunaði þá að örfáum dögum síðar stæðum við með fjármagnaðan samning af hálfu ríkisvaldsins. Samning sem var undirritaður skömmu síðar. Íþróttahreyfingin fékk þá í fyrsta skipti fjármagn utan hefðbundinna fjárliða íþrótta- og æskulýðsstarfs. Fjármagnið tengist málaflokkum um „farsæld“ og var annars vegar veitt til reksturs svæðisstöðva íþróttahéraðanna og hins vegar í hvatasjóð sem einmitt nú er opinn fyrir umsóknir í þriðja skiptið. 

Við, eins og svo mörg önnur, bíðum nú niðurstöðu fjárlagavinnu ríkisins um mögulega framlengingu samningsins. Málaflokkurinn „farsæld“ er enn til staðar á fjárlögum. Í ljósi þess árangurs sem hefur náðst og mikillar þýðingar þess fyrir íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarnar þá skiptir verulegu máli að framhald verði á fjárveitingum til svæðisstöðvanna úr ríkissjóði.

Við sáum sambærilegan árangur samvinnu í verkefninu „Allir með!“. Það er einstakt á margan hátt. Þar sameinast þrjú ráðuneyti í því að styrkja verkefnið undir forystu Íþróttasambands fatlaðra í samstarfi ÍSÍ, UMFÍ, Öryrkjabandalags Íslands og Þroskahjálpar.

Mörg verkefni eru svo framundan sem við í íþróttahreyfingunni þurfum að takast á við og finna lausn á. 

Stærsta samstarfsverkefni ÍSÍ og UMFÍ um þessar mundir eru svæðisstöðvar íþróttahéraða. Tilgangurinn er að þær styðji íþróttahéruðin til að efla íþróttastarf á landsvísu, styðja betur við íþróttafélög landsins, bæta þjónustu við iðkendur og ná betur til þeirra sem standa af öllum mögulegum ástæðum utan við skipulagt íþróttastarf. 

Starfsfólk svæðisstöðvanna hefur nú í rúmt ár unnið á vettvangi. Þau hafa nálgast vinnuna í samræmi við ólíkar þarfir – hvert í sinni heimabyggð. Rauði þráður þeirra felst í að kortleggja núverandi stöðu íþróttahéraða, tengja saman hagsmunaaðila í sveitarfélögum við hreyfinguna og fá fólk víða að til þess að setjast niður, ræða málin og finna lausnir á mörgum málum. 

Ég hef heyrt að starf og árangur svæðisfulltrúanna til þessa hafi ekki fengið næga kynningu. Við hefðum mátt setja meiri kraft í að sýna ávinninginn, sem þegar hefur náðst. En segja má að hreyfingin öll er almennt of upptekin við daglegt amstur frekar en að draga það fram sem vel er gert, kynna og hrósa verkum sínum. 

Ég er sannfærður um að vinna starfsfólks svæðisstöðvanna eykur verulega líkurnar á því að við getum náð þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa sett með lögum um farsæld barna, íþróttalögum og íþróttastefnu ríkisins. Svæðisstöðvarnar eru án efa sá vettvangur sem hægt er að nýta fyrir frekari samvinnuverkefni ÍSÍ og UMFÍ, sem þing beggja hreyfinga hafa ítrekað ályktað um og tengist aukinni samvinnu þeirra á milli. Það er því mikilvægt og okkar allra hagur að grípa í sameiningu og nýta þau tækifæri sem vettvangur svæðisstöðvanna býður uppá.

Með öflugu samtali og samvinnu komum við íþróttamálum betur á dagskrá í samfélaginu.

Á Alþingi og kaffistofum landsins.

Af mörgu er að taka.

Enn er sótt að hreyfingunni í umræðu um veðmálastarfsemi. Það er hagsmunamál okkar allra að taka af hörku á starfsemi ólöglegra erlendra veðmálafyrirtækja hér á landi. Það er – svo vægt sé til orða tekið - með ólíkindum að stjórnvöld geti ekki fylgt eftir þeim lögum sem gilda í landinu um starfsemi veðmálafyrirtækja.

En málin eru miklu fleiri. 

Skattamál íþróttafélaga hafa verið í umræðunni síðustu misseri. Á dögunum fengu sum aðildarfélög bréf frá Skattinum þar sem þau voru krafin um upplýsingar fyrir lok þessa mánaðar. Við verðum að draga framlag hreyfingarinnar betur fram í dagsljósið og ná ásættanlegri niðurstöðu um skattamál íþróttahreyfingarinnar og fjármögnun hennar. Til að það takist verðum við að vera samstíga. Ákveða hvað er líklegast til að skila mestum árangri fyrir heildina og sækja þar fram. 

Annasamt ár er að baki hjá okkur öllum. Við getum gert ráð fyrir að næsta ár verði það líka. 
Nú höfum við tækifæri til að taka enn betur utan um íþróttahreyfinguna og hefja samtal um stefnumótun hennar til framtíðar – stefnumótun þar sem ríki og sveitarfélög taka höndum saman með ÍSÍ og UMFÍ. Við þurfum öll að fara í þá vinnu og ræða hlutverk og ábyrgð allra þeirra sem að starfi hreyfingarinnar koma, útfæra það með nýjum íþróttalögum og skapa saman betra starfsumhverfi fyrir þau öll sem starfa í hreyfingunni. Það er varða á vegferð okkar - leiðin að betri íþróttahreyfingu og betra samfélagi. 

Landsmót DGI, sem eru systursamtök UMFÍ í Danmörku, fór fram í sumar. Í frábærri ræðu við setningu mótsins sagði formaður þeirra, Charlotte Bach Thomassen, frá lifandi starfi íþróttahreyfingarinnar.

Ég vil gera orð hennar að mínum. „Íþróttafélögin“, sagði hún – „þau standa aldrei kyrr. Við finnum stöðugt nýjar leiðir til að vera saman. Það styrkir okkur sem einstaklinga. Það styrkir samfélögin og það styrkir þjóðfélagið. Við erum kannski ekki öll eins - og ekki alltaf sammála. En við deilum sameiginlegum áhuga. Þegar ágreiningur kemur upp þá ræðum við saman. Lykilatriðið er að þegar við hreyfum okkur saman – og hreyfum hvert annað - þá hreyfum við heiminn. Allir vinna þegar allir eru með.“

Kæru félagar. 

Sunnan við Stykkishólm - rétt utan við Stykkishólmsveg - stendur Helgafell. Í þjóðsögu um fellið segir að þau sem ganga upp á það geti fengið þrjár óskir uppfylltar. En aðeins ef ekki er litið um öxl - og ef ekki er orð mælt af munni. Þegar horft er í austurátt skal bera óskirnar upp. Ef öll skilyrði eru uppfyllt muni óskirnar rætast. Ég hvet ykkur til að hafa þessa sögu í huga. Þótt það sé vissulega mikilvægt að þekkja sögu okkar og sjálfsagt í okkar hreyfingu að tjá hug sinn - þá er mikilvægt að festast ekki í fortíðinni og halda áfram - feta óhrædd veginn og auka líkur á að óskir okkar verði uppfylltar.

Við höfum sýnt að við búum yfir seiglu, erum hugrökk, nútímaleg og óhrædd við að tjá okkur. Við erum hreyfiafl – og hjá okkur er eina leiðin áfram.  Samfélagið þrífst best þegar við vöxum og döfnum, saman. 

Ég kalla því eftir að heyra sjónarmið ykkar í umræðum hér á þinginu um tillögur, hugmyndir að lausnum - pælingar um það sem betur má fara. Ég hlakka til samtals á þinginu um allt það sem ykkur liggur á hjarta. Með jákvæðum samskiptum og uppbyggilegri gagnrýni gerum við starf hreyfingarinnar okkar enn betra – Það er ungmennafélagsandinn í verki.

Kæru ungmennafélagar: Grípum tækifærin, tölum saman, deilum hugmyndum og gerum lífið betra. 

Það er samfélaginu til góða.

Ég segi 54. Sambandsþing UMFÍ sett. 

Íslandi allt!