Dagur sjálfboðaliðans
Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans. Af því tilefni hvetjum við sambandsaðila og aðildarfélög UMFÍ til að hampa sjálfboðaliðum, sem hafa haldið uppi íþrótta- og ungmennastarfi gegnum árin.
Þessi dagur hefur verið haldinn frá árinu 1985 þegar Sameinuðu þjóðirnar ákváðu að helga 5. desember öllum sjálfboðaliðum. Íþróttahreyfingin á Íslandi hefur, eins og svo mörg önnur starfsemi í landinu, verið borin uppi af sjálfboðaliðum sem eiga hrós skilið fyrir framlag sitt í þágu íþrótta og sinna félaga.
Ýmislegt er hægt að gera í tilefni dagsins, hampa sjálfboðaliðum á heimasíðum og samfélagsmiðlum, bjóða upp á kaffi og meðlæti og lyfta þeim upp með þeim hætti sem mögulegt er.
Svæðisstöðvar íþróttahéraðanna, ÍSÍ og UMFÍ hafa útbúið nokkrar myndir sem sambandsaðilar og aðildarfélög geta notað á miðlum sínum eftir því sem við á hverju sinni. Myndirnar munu birtast á vefmiðlum í dag, á auglýsingaskiltum og víðar.
Við hvetjum í tilefni dagsins til að sjálfboðaliðum verði hampað og lyft upp í dag.
Vöfflukaffi og erindi
Í tilefni af degi sjálfboðaliðans bjóða ÍSÍ og UMFÍ sjálfboðaliðum íþróttahreyfingarinnar að koma í Íþróttamiðstöðina í Laugardal og halda upp á daginn.
Klukkan 14:00 verður stutt málþing með þremur erindum.
- Lárus Blöndal, heiðursforseti ÍSÍ, ætlar að segja frá ferðalagi sínu sem sjálfboðaliði í íþróttahreyfingunni.
- Bjarni Malmquist Jónsson, formaður Ungmennasambandsins Úlfljóts (USÚ) og Ungmennafélagsins Vísis, segir frá störfum sínum sem sjálfboðaliði og greinir frá uppbyggingu frjálsíþróttavallar í Suðursveit.
- Þá mun Halla Margrét Jónsdóttir, fulltrúi framkvæmdastjórnar UMFÍ og fyrrum formaður Ungmennaráðs UMFÍ, fjalla um reynslu sína og störf sem sjálfboðaliði í stjórnum og í fleiri verkefnum.
Að dagskrá lokinni er öllum viðstöddum boðið í vöfflukaffi í boði Vilko og Mjólkursamsölunnar.
Með þessu vilja ÍSÍ og UMFÍ vekja athygli á ómetanlegu framlagi sjálfboðaliða til íþróttastarfsins, en án þeirra gengi starfið einfaldlega ekki upp.