Fara á efnissvæði
30. apríl 2024

Blað brotið í afreksmálum

„Ég held að í dag hafi ríkisstjórnin brotið blað í afreksmálum,“ segir Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, á fundi þar sem kynnt var skýrsla starfshóps um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks. Hópurinn skilaði skýrslunni í dag ásamt tillögum sínum til mennta- og barnamálaráðherra um stóreflingu afreksíþróttastarfs. Tillögurnar eru í sex köflum og innan hvers kafla 30 tillögur um eflingu afreksstarfs á Íslandi. 

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sagði að fjallað hafi verið um efni skýrslunnar og tillögurnar í dag. Hann ætli að fylgja efni hennar eftir. Næst á dagskrá sé að skipa þverpólitískan starfshóp sem ætlað er að skila tímasettri aðgerðaráætlun 15. ágúst næskomandi um það hvernig unnt sé að vinna eftir tillögunum. 

Á meðal tillagnanna eru stofnun Afreksmiðstöðvar Íslands, sem ætlað er að íþróttafólk geti náð betri árangri í íþróttum. Forsenda hennar er öflug samvinna og samstarf milli stjórnvalda, sveitarfélaga, atvinnulífs, íþróttahreyfingar, grunn- og framhaldsskóla, háskólasamfélagsins og sérfræðinga og fagaðila á sviði íþrótta. Aðrar tillögur fela í sér samræmingu afreksstefnu ÍSÍ og sérsambanda, hækkun Afrekssjóðs, að launasjóði afreksíþróttafólks verði komið á laggirnar, aukinn stuðningur sveitarfélaga og atvinnulífs við afreksíþróttir og afreksstarf á ólíkum skólastigum og að komið verði á fót sérstökum nýsköpunarsjóði eða hvatakerfi sem hefur það markmið að efla og styrkja afreksvið framhaldsskólanna. Tilgangurinn er að efla tengsl framhaldsskólanna, íþróttafélaga og sveitarfélaga. 

Tillögurnar eru byggðar á álitum fjölmargra álitsgjafa frá íþróttahreyfingunni, stjórnvöldum, skólakerfi, atvinnulífi og öðrum hagsmunaaðilum. Mikil áhersla var lögð á að vinna tillögurnar í góðu samráði og samvinnu við hagsmunaaðila. Mikilvægur hluti af vinnu starfshóps var að greina hvernig nágrannalöndin standa að afrekstarfi í íþróttum. Mikilvægt þyki að aðlaga tillögurnar að íslenskum aðstæðum. 

Tillögur hópsins voru kynntar á opnum kynningarfundi síðdegis í Laugardalshöll í dag. Þar ræddu þrír ráðherrar um efni skýrslunnar og starfshópsins og næstu skref. Það voru þeir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. Þeir Bjarni og Sigurður hrósuðu vinnu starfshópsins sömuleiðis í hástert.

Vésteinn Hafsteinsson, formaður starfshópsins og afreksstjóri ÍSÍ, ræddi um vinnu starfshópsins. 

Að lokinni kynningunni voru pallborðsumræðar meðal fundargesta og bakhjarla sem stóðu að framkvæmdinni annars vegar og íþróttafólks og þjálfara sem aðgerðirnar beinast hins vegar. Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, var í pallborði og sagði hún þetta gott innlegg inn í starf svæðastöðvanna sem verið er að setja á laggirnar um allt land.

Í pallborði ásamt Auði Ingu voru Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, Ásmundur Einar og áðurnefndar Arnar Þór Sævarsson.

 

Starfshópinn sem stóð að skýrslunni skipuðu:

 • Vésteinn Hafsteinsson, formaður, án tilnefningar
 • Guðmunda Ólafsdóttir, tilnefnd af Ungmennafélagi Íslands
 • Örvar Ólafsson, án tilnefningar
 • Hildur Ýr Þórðardóttir, án tilnefningar
 • Steinþór Einarsson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
 • Erlingur Jóhannsson, tilnefndur af íþróttanefnd ríkisins
 • María Sæm Bjarkardóttir, tilnefnd af heilbrigðisráðuneyti
 • Eva Margrét Kristinsdóttir, tilnefnd af félags- og vinnumarkaðsráðuneyti
 • Knútur G. Hauksson, tilnefndur af Íþrótta- og Ólympíusambandi
  Íslands
 • Kristín Birna Ólafsdóttir, tilnefnd af Íþrótta- og Ólympíusambandi
  Íslands

 

Skýrsla starfshópsins