Bjarni er nýr formaður USÚ

Bjarni Malmquist Jónsson er nýr formaður Ungmennasambandsins Úlfljóts (USÚ) og tók hann við af Jóhönnu Írisi Ingólfsdóttur á 92. ársþingi USÚ sem fram fór á Hrollaugsstöðum á þriðjudag, 22. apríl síðastliðinn.
Fram kemur í ítarlegri umfjöllun af þinginu á heimasíðu USÚ að þau Jóhanna og Bjarni voru bæði skírð í sömu athöfn við Kálfafellsstaðarkirkju, steinsnar frá Hrollaugsstöðum.
Jóhanna hefur setið í stjórn USÚ síðastliðin 10 ár, fyrsta árið sem ritari en tók við sem formaður ári síðar. Á síðasta ári tók Jóhanna Íris við starfi svæðisfulltrúa íþróttahreyfingarinnar á Austurlandi.
Breytingar á stjórn
Þingið var ágætlega sótt, en alls mættu 26 fulltrúar af þeim 37 sem rétt áttu á þingsetu, þar að auki mættu reyndar fjórir varafulltrúar frá Umf. Sindra. Fulltrúar frá sjö af níu félögum innan USÚ sóttu þingið.
Þó nokkrar breytingar urðu á stjórn USÚ. Auk formannsskipta þá gaf Jón Guðni Sigurðsson, ritari USÚ, ekki heldur kost á sér til endurkjörs. Það gerði hins vegar Sigurður Óskar Jónsson, gjaldkeri, og var hann endurkjörinn.
Ný inn í stjórn eru þau Bjarni Malmquist Jónsson, formaður Vísis, og Margrét Kristinsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri Sindra. Að þingi loknu var haldinn stuttur stjórnarfundur, þar sem ákveðið var að Bjarni yrði formaður USÚ, Margrét ritari og Sigurður áfram gjaldkeri.
Hannes Halldórsson frá ungmennafélaginu Mána, gaf kost á sér áfram sem varamaður. Guðbjörg Guðlaugsdóttir frá Sindra kom inn í staðinn fyrir Björgvin Hlíðar Erlendsson. Skoðunarmenn reikninga voru endurkjörnar. Þær eru Inga Kristín Sveinbjörnsdóttir og Halldóra Katrín Guðmundsdóttir. Þær voru einnig kosnar í kjörnefnd fyrir næsta þing, auk Halldóru Bergljótar Jónsdóttur. Kristján Sigurður Guðnason er til vara.
Á þinginu sagði Bjarni Malmquist, sem jafnframt er formaður Vísis, sagði frá starfi félagsins, en það var nýlega endurvakið eftir um tveggja áratuga hlé á starfseminni. Hann sýndi einnig myndir af því sem fram undan er í uppbyggingu íþróttaaðstöðu við Hrollaugsstaði. Að þingi loknu var svo öllum þingfulltrúum boðið að skoða aðstöðu félagsins í kjallara félagsheimilisins.
Gestir þingsins voru þau Ragnheiður Högnadóttir fyrir hönd UMFÍ og Hafsteinn Pálsson fyrir hönd ÍSÍ.
Ragnheiður afhenti stjórn USÚ afmælisgjöf frá UMFÍ. Það var forláta skjöldur sem færa átti USÚ í tilefni að 90 ára afmæli sambandsins 2022.
Hafsteinn sæmdi Jóhönnu Írisi gullmerki ÍSÍ og Gunnar Inga Valgeirsson silfurmerki ÍSÍ fyrir störf þeirra innan íþróttahreyfingarinnar.
Hvatning og heiðranir
íþróttamaður USÚ fyrir árið 2024 heiðraður. Einnig fengu fimm ungir iðkendur hvatningarverðlaun.
Íþróttamaður USÚ 2024 er Ída Mekkín Hlynsdóttir, sem æfir og keppir fyrir hönd Hestamannafélagsins Hornfirðings. Þau fimm sem hlutu Hvatningarverðlaun USÚ fyrir árið 2024 voru: Hlynur Ingi Finnsson, Margrét María Aradóttir, Oskar Karol Jarosz, Rami Omar Zriouil og Thelma Björg Gunnarsdóttir.



