Fara á efnissvæði
25. október 2023

Birna er nýr matmaður UMFÍ

Íþróttakennarinn Birna Baldursdóttir er nýjasti matmaður UMFÍ. Birna var útnefnd matmaður á 53. Sambandsþingi UMFÍ sem fram fór á Hótel Geysi í Haukadal um helgina. Ingvar Sverrisson, formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBA), og matmaður síðasta þings, sagði Birnu vel að titlinum komin. Hún hafi borðað eins og sönnum matmanni sæmdi, talað endalaust um mat og hjálpað öðrum að klára af diskum sínum. 

Birna er varaformaður Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBR) og mikil íþróttakona, fyrr­ver­andi landsliðskona í blaki, strand­blaki og ís­hokkí ásamt mörgu fleiru.

Hefð er fyrir því síðan árið 1979 á þingum UMFÍ að velja matmann UMFÍ. Farandgripurinn, askur, er afhentur í lok síðustu máltíðar þings UMFÍ þeim þingfulltrúa eða stjórnarmanni UMFÍ sem að mati dómnefndar er þess verðugastur að geyma gripinn til næsta þings. Við valið er m.a. horft til framgöngu í matar og kaffitímum þingsins, beitingu hnífapara, stíls, borðsiða o.fl. Dómnefnd er skipuð forseta þingsins og fyrrverandi matmanni.

Héraðssambandið Skarphéðinn (HSK) gaf askinn á sínum tíma og hefur það lengi fallið í hlut Guðríðar Aadnegard, formanns HSK, að afhenda hann. Á þinginu um helgina gerði hún það með þingforsetanum Þóri Haraldssyni og Ingvari, sem var matmaður þingsins á Húsavík árið 2021 og hafði geymt askinn í tvö ár. 

Birna er sjötta konan sem er matmaður þings UMFÍ.

Á myndinni hér að neðan má m.a. sjá Helgu Björg Ingvadóttur, framkvæmdastjóra ÍBA, rétta Birnu disk sinn sem hún gat ekki klárað á þinginu.