Aldrei fleiri frá UMFÍ á ráðstefnu ISCA
Íslendingar áttu glæsilegan hóp fulltrúa íþróttahreyfingarinnar á ráðstefnunni Move Congress sem alþjóðlegu grasrótarsamtökin ISCA héldu í samstarfi við DGI í ráðstefnumiðstöðinni við Tívolíið í Kaupmannahöfn í síðustu viku. Gríðarlegur fjöldi fólks hvaðanæva að úr heiminum sótti ráðstefnuna. Þátttakendur voru rúmlega 850 talsins frá meira en 60 löndum og höfðu aldrei verið fleiri.
Ráðstefnan er haldin á tveggja ára fresti í ýmsum stórborgum víða um heim. Fyrir tveimur árum var hún haldin í Madrid á Spáni, þar áður í Brussel í Belgíu, í Búdapest í Ungverjalandi og víðar. Ráðstefnan nú var sú tólfta sem ISCA heldur.
Íslensku þátttakendurnir samanstóðu af hluta af fyrri og nýrri stjórn UMFÍ, fulltrúum nokkurra sambandsaðila, þremur svæðisfulltrúum og starfsfólki UMFÍ.
Leiðir til að virkja fólk
Þema ráðstefnunnar var Virkjun (upp á ensku: Activating) og í því fólst að ræða um árangursríkar leiðir til að virkja fólk og samfélög og efla í samstarfi, hverju sem það nefnist. Til umræðu var starfsemi og þátttaka í grasrótaríþróttum, starfi sveitarfélaga og ýmsu fleiru. Fjallað var um fjölbreyttar leiðir sem geta komið að gagni til að hvetja fólk til þátttöku í starfi íþróttafélaga og í öðrum félagasamtökum.
Undir þemanu voru auk þess tekin fyrir málefni eins og andleg og líkamleg heilsa, félagsleg þátttaka, aðlögun flóttafólks í samfélaginu og aðkoma íþróttafélaga að þeirri vinnu, starf sjálfboðaliða, vernd og réttindi barna, virk öldrun og forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi og er þá fátt eitt nefnt.
Við setningu ráðstefnunnar hélt Íslandsvinurinn Mogens Kirkeby, formaður ISCA, hvetjandi ávarp í samræmi við þemað. Á eftir honum fylgdi Charlotte Bach Thomassen, formaður DGI. Auk þess hélt ávarp Fiona Bull, yfirmaður hreyfingar og heilsueflingar hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO). Hún fjallaði um ýmsar áskoranir samtímans, hreyfingarleysi og leiðir til að fá fólk til að taka þátt í samfélaginu til að bæta sjálfa sig og samfélagið um leið. Á setningunni sýndi fimleikahópur listir sínar. Gífurlega eftirsóknarvert er að komast inn í fimleikahópinn sem ferðast um heiminn og sýnir listir sínar.
Hópurinn, sem heitir upp á dönsku Verdensholdet, er væntanlegur hingað til lands næsta vor í nokkrar vikur.
Að lokinni setningu ráðstefnunnar hófust nokkrar málstofur sem þátttakendur gátu tekið þátt í í tvo daga.
UM DGI OG ISCA
Mikið og gott samstarf hefur verið á milli UMFÍ og bæði ISCA og DGI í gegnum árin. UMFÍ tók virkan þátt í stofnun ISCA árið 1995 og hafa frá fyrstu dögum verið mikil og góð tengsl á milli samtakanna.
DGI (d. Danmarks Gymnastik og Idrætsforeninger) eru systursamtök UMFÍ í Danmörku. Mikil samvinna er á milli samtakanna og koma margar fyrirmyndir að verkefnum UMFÍ frá DGI. Fulltrúar starfsmanna og stjórnar UMFÍ tóku þátt í Landsmóti DGI í Vingsted í Danmörku í júlí árið 2025.
Fleiri myndir frá ráðstefnunni.