Fara á efnissvæði
11. september 2017

Ættum að höfða til yngra fólks og lækka aldurinn í 40+

Guðríður Aadnegard er formaður Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK). Skömmu eftir Landsmót UMFÍ 50+ í Hveragerði í júní síðastliðinn fór hún ásamt hópi á vegum UMFÍ til að fylgjast með landsmóti DGI í Danmörku. Hún sneri aftur með fullt af nýjum hugmyndum í farteskinu fyrir Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður í Þorlákshöfn á næsta ári.

Hvernig gekk mótið í Hveragerði?

„Mér fannst mótið ganga mjög vel. Það bjargaðist fyrir horn að aðeins rigndi á föstudeginum því að þá var keppt í innigreinum. Greinarnar úti voru um helgina og þá var sem betur fer sól. Ég var mjög ánægð með það hvað framlag Hamars í Hveragerði var gott og hvað sjálfboðaliðarnir komu sterkir inn. Þeir voru margir og unnu tímunum saman með bros á vör. Svo var ég líka ánægð með að sjá hvað stjórn og starfsmenn UMFÍ létu til sín taka. Það er stuðningur að vita af fólki sem kann til verka.“

Hvað lærðuð þið af mótshaldinu?

„Landsmót UMFÍ 50+ var fyrsta mótið sem haldið er í Hveragerði í langan tíma. Þarna sá fólk hvað þetta er skemmtileg vinna og hvað það gefur mikið af sér félagslega að vinna með öðrum. Það auðveldar allt mótshald í framtíðinni.“

Hvað þurfa þeir sem halda mót að hafa í huga?

„Ég er mjög hugsi eftir ferð Ungmennafélags Íslands á landsmót DGI í Danmörku. Þar lærðum við margt nýtt og höfum rætt mikið um það sem við sáum þar, nýja vinkla, góða nálgun á starf sjálfboðaliða, hvernig bæjarbúar eru virkjaðir fyrr í ferlinu og ýmislegt fleira. Eftir þessa ferð sáum við að við þurfum að byrja undirbúning fyrr, að virkja sveitarfélagið og bæjarbúa.“

Áttu ráð handa skipuleggjendum móta UMFÍ?

„Eftir mót DGI myndi ég vilja skoða að lækka aldur þátttakenda og sjá fleiri 40+ taka þátt í mótunum okkar. Það voru margir í Hveragerði undir fimmtugu sem biðu á hliðarlínunni og langaði að vera með. Svo sást líka í ýmsum greinum, svo sem í ringó, að sjötugir og eldri stóðu alveg uppi í hárinu á þeim yngri. Það sýndi sig líka þegar Óli Geir, sem stýrði línudansinum, bauð fólki að koma og prófa daginn eftir keppni, að það má vel hafa fleiri vinnustofur og námskeið á mótunum sem fólk getur kíkt inn á og prófað aðrar greinar. Fólk þarf að þora að stíga fyrstu skrefin í nýjum greinum. Ég sé alveg fyrir mér að vinnustofa í pönnukökubakstri geti verið vinsæl.“

Hvað var eftirtektarverðast í Danmörku sem mætti taka upp hér?

„Mér fannst vinnustofurnar um íþróttir og hreyfingu og boð um að leyfa gestum að koma og prófa nýjar greinar mjög áhugaverðar. En það sem vakti athygli mína var að fólk var almennt á landsmóti DGI að keppa sér til gamans. Þar voru heldur engir verðlaunapeningar veittir fyrir efstu sætin. Við mættum taka það upp hér.“

 

Viðtalið við Guðríði er að finna í Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Hægt er að nálgast blaðið allt á hlekknum hér að neðan.

 

Skinfaxi