28 milljónir til eflingar íþróttastarfs um allt land
52 verkefni af ýmsu tagi um allt land fengu styrki upp á 27,8 milljónir króna úr Hvatsjóði íþróttahreyfinginnar. Þetta var þriðja úthlutun úr sjóðnum en fyrsta úthlutun úr honum var í upphafi árs. 71 umsókn um styrk barst sjóðnum upp á um 66 milljónir króna.
Tíu verkefni hlutu eina milljón króna hvert og voru það hæstu styrkirnir. Flestir styrkir úr Hvatasjóðnum nú hlutu verkefni iðkenda með fötlun eða 21 verkefni. Níu verkefni tengjast iðkendum af tekjulægri heimilum og fjögur verkefni iðkendum með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Átján verkefni tengjast öðru en áhersluflokkunum þremur eða þá að fleiri en einn áhersluflokkur sé í verkefninu.
Fjöldi verkefna sem hlutu styrk eftir landshlutum:
- Austurland: 3 Upphæð styrks: 2,7 milljónir króna
- Höfuðborgarsvæðið: 17 Upphæð styrks: 9,7 milljónir króna
- Norðurland eystra: 5 Upphæð styrks: 2,4 milljónir króna
- Norðurland vestra: 2 Upphæð styrks: 950 þúsund
- Suðurland: 6 Upphæð styrks: 1,5 milljónir
- Suðurnes: 6 Upphæð styrks: 3,4 milljónir
- Vestfirðir: 5 Upphæð styrks: 3 milljónir
- Vesturland: 8 Upphæð styrks: 4,1 milljón
Heildarúthlutun úr Hvatasjóði á árinu nemur rúmum 86 milljónum króna. Í fyrstu úthlutun sjóðsins í mars fengu 30 verkefni 20,3 milljónir í styrki. Í annað sinn hlutu 72 verkefni styrk upp á rúmar 38 milljónir króna.
Nánar um Hvatasjóð íþróttahreyfingarinnar:
Hvatasjóður íþróttahreyfingarinnar er sjóður á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) með stuðningi Mennta- og barnamálaráðuneytis. Sjóðurinn tengist stofnun átta svæðisstöðva íþróttahéraða og markmiðum um eflingu íþróttastarfs á landsvísu. Sjóðurinn styrkir verkefni sem miða að útbreiðslu íþrótta og aukinni þátttöku barna í íþróttum með áherslu á þátttöku barna með fötlun, af tekjulægri heimilum og með fjölbreyttan tungumála og menningarbakgrunn.
Í Hvatasjóðinn geta sótt íþróttahéruð ÍSÍ og UMFÍ, íþróttafélög og deildir innan ÍSÍ og UMFÍ, sérsambönd í samstarfi við íþróttahéruð, félög eða deildir félaga.
Upplýsingasíða Hvatasjóðs íþróttahreyfingarinnar