Fara á efnissvæði
24. apríl 2024

UMFN heitir nú Ungmennafélagið Njarðvík

„Þetta var frekar óvænt en skemmtilegt,“ segir Ólafur Eyjólfsson, formaður Ungmennafélagsins Njarðvík (UMFN). Hann var sæmdur Gullmerki UMFÍ á vel sóttum aðalfundi félagsins í vikunni. 

UMFN fagnar 80 ára afmæli á árinu og var upphaflega stefnt að því að halda upp á tímamótin 10. apríl síðastliðinn í kringum fyrsta leik UMFN í úrslitakeppni karla í körfuknattleik. Fundinum var hins vegar frestað og afmælinu fagnað á fundinum í vikunni. Þar var afmælissöngur sunginn og glatt á hjalla. 

 

Verður Njarðvík

Í tilefni afmælisins voru gerðar tvær merkilegar breytingar. Sú fyrri fól í sér að breyta nafni Ungmennafélags Njarðvíkur. Lagt var til að það yrði framvegis Ungmennafélagið Njarðvík. Vísað var til sögu Ungmennafélags Keflavíkur. Þegar sveitarfélögin Njarðvík, Keflavík og Hafnir sameinuðust undir nafninu Reykjanesbær þá var nafni félagsins breytt í Keflavík, íþrótta- og ungmennafélag. Í tali sé félagið sömuleiðis ávallt kallað Njarðvík. Mörg ungmennafélög titli sig á sama hátt og var nefnt sem dæmi Ungmennafélagið Fjölnir, Ungmennafélagið Snæfell, Ungmennafélagið Tindastóll og Ungmennafélagið Þróttur ásamt mörgum fleirum.

Þá var sú lagabreyting samþykkt að framvegis geti aðalstjórn lagt niður deild innan félagsins ef ekki eru lengur forsendur fyrir rekstri viðkomandi deildar, starfsemi deildar kastar rýrð á félagið, stjórn deildar fer ekki að lögum félagsins eða rekstur deildar stefnir hagsmunum félagsins í voða. Ákvörðun aðalstjórnar skuli staðfest á næsta aðalfundi eða aukaaðalfundi með samþykki 2/3 viðstaddra atkvæðisbærra fundarmanna. 

 

Margar viðurkenningar

Guðmundur Sigurbergsson, gjaldkeri stjórnar UMFÍ, sæmdi Ólaf gullmerki. 

Fimm hlutu bronsmerki UMFN fyrir tíu ára starf fyrir félagið. Það eru þau Erna Hákonardóttir, Ólafur Helgi Jónsson, Skúli Björgvin Sigurðsson, Sigurrós Antonsdóttir og Örvar Þór Kristjánsson sem hlutu slíka heiðursviðurkenningu. 

Silfurmerki fyrir fimmtán ára störf hlaut Guðný Björg Karlsdóttir. 

Þeir Friðrik Ingi Rúnarsson og Thor Hallgrímsson voru sæmdir Gullmerki UMFN fyrir störf þeirra. 
Vala Rún Vilhjálmsdóttir hlaup Ólafsbikarinn, sem þarna var afhentur í 32. sinn. Hann er viðurkenning fyrir þau sem hafa unnið óeigingjarnt starf fyrir félagið. Þegar Ólafur Thordersen afhenti Völu bikarinn tóku fundargestir undir með kröftugu lófaklappi og fögnuði. 

Á aðalfundinum varð lítil breyting á stjórn UMFN. Ólafur var endurkjörinn formaður til eins árs. Einara Lilja Kristjánsdóttir og Þórdís Björg Ingólfsdóttir sitja áfram í stjórn þar sem þau voru kjörin til tveggja ára á síðasta aðalfundi, Thor Hallgrímsson og Erlingur Hannesson voru kjörnir til tveggja ára stjórnarsetu, Guðný Björg Karlsdóttir og Anna Andrésdóttir kjörnar varamenn til eins árs.
Hámundur Örn Helgason, framkvæmdastjóri UMFN, gaf ekki kost á sér áfram í stjórn og tók Erlingur Hannesson sæti hans. 

Ólafur segir fólk nú bíða eftir nýju íþróttahúsi UMFN eða í hátt í tvö ár. Nýtt íþróttahús er í smíðum og á áætlun að það verði vígt í ágúst. Í tengslum við vígsluna verður blásið til enn veglegri afmælisveislu.