Fara á efnissvæði
23. apríl 2024

ÍS er nýr sambandsaðili UMFÍ

„Ég sé spennandi tíma framundan. Við horfum til aukins aðgengis að fagþekkingu í tengslum við íþrótta- og ungmennafélagsmál og svo eru það svæðastöðvarnar, sem ég held að muni leiða til þess að við munum öll vinna meira saman,“ segir Gunnar Jóhannesson, formaður Íþróttabandalags Suðurnesja (ÍS).

Bandalagið er nýjasti sambandsaðili UMFÍ en umsókn þess um aðild var samþykkt á fundi stjórnar UMFÍ um helgina. ÍS sótti um aðild að UMFÍ seint á síðasta ári með fyrirvara um samþykkt á ársþingi ÍS, sem haldið var á dögunum. 

 

Fimm íþróttabandalög

ÍS er fimmta íþróttabandalagið sem bætist í raðir UMFÍ á jafn mörgum árum. Á sambandsþingi UMFÍ í október 2019 fengu Íþróttabandalag Akraness, Íþróttabandalag Akureyrar og Íþróttabandalag Reykjavíkur aðild að UMFÍ. Íþróttabandalag Hafnarfjarðar bættist í hópinn í nóvember 2023. 

Innan ÍS eru níu félög, þar á meðal Ungmennafélagið Þróttum Vogum og Ungmennafélag Grindavíkur, sem hafa haft beina aðild að UMFÍ. Sú aðild fellur nú niður og verða félögin aðildarfélög UMFÍ gegnum ÍS.

Sambandsaðilum UMFÍ fækkar í samræmi við þetta. Sambandsaðilar UMFÍ eru nú 26 talsins sem skiptast í 23 íþróttahéruð og 3 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 450 félög innan UMFÍ. 

Hin félögin innan íþróttabandalagsins eru Golfklúbbur Grindavíkur, Golfklúbbur Sandgerðis, Golfklúbbur Vatnsleysustrandar, Hestamannafélagið Brimfaxi, Knattspyrnufélagið GG, Knattspyrnufélagið Reynir og Knattspyrnufélagið Víðir.

Gunnar er afar spenntur fyrir aðildinni að UMFÍ, enda margar áskoranir sem íþróttahreyfingin stendur frammi fyrir.

„Mikið hefur breyst í umhverfi okkar í gegnum tíðina. Sjálfboðaliðum hefur fækkað og bakgrunnur iðkenda orðinn fjölbreyttari en áður. Ef við vinnum saman þá getum við orðið mun markvissari í starfi okkar og náð árangri. Það er svo margt sem við getum gert betur saman,“ segir Gunnar, sem var að koma heim eftir þátttöku í Lundúnarmaraþoni ásamt um 50 þúsund manns um helgina. Þetta var fjórða stóra maraþon Gunnars sem sömuleiðis hefur hlaupið í New York og víðar.