Fara á efnissvæði
31. júlí 2022

Eldgos hafið á Selfossi

Keppni í kökuskreytingum er hafin á Unglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi. Hvorki fleiri né færri en 246 ungmenni á aldrinum 11-18 ára taka þátt í keppninni. Ljóst er að um gríðarlega sprengingu er að ræða því aldrei hafa fleiri keppendur tekið þátt í greininni. Boðið var upp á keppnina fyrst á Unglingalandsmóti UMFÍ á Egilsstöðum sumarið 2017 og varð hún strax eldheit.

Keppni einstaklinga í kökuskreytingum hófst klukkan 16:00 en liðakeppni hefst stundarfjórðungi síðar.

Á myndinni hér að ofan má sjá Esther Ösp styðja Kormák Elí son sinn nokkrum mínútum áður en keppnin hófst. Þau eru bæði frá Héraðssambandi Strandamanna (HSS), sem er sambandsaðili UMFÍ.

 

Eldgos og flugeldasýning

Keppendur í kökuskreytingum keppast þar um að skreyta kökubotna með þemanu sem eru af tvennum toga: Eldgos og flugeldasýning.

Í kökuskreytingakeppninni er dæmt eftir frumlegheitum og heildarútliti og vel gefið fyrir sköpunarhæfileika og notkun á hráefnum. 

Keppnin er með þeim hætti að þátttakendur fengu tilbúna hringlaga 16 sentimetra svampbotna á staðnum, hvítt smjörkrem, kökuskraut og kókosmjöl.  Þátttakendum var líka heimilt að koma með sitt eigið skraut og nammi.

Keppni í kökuskreytingum er ekki aðeins vinsæl heldur trekkir greinin að áhorfendur. Þeir fá hins vegar ekki að gæða sér á dýrðinni því keppendur geta fengið að taka kökuna með sér heim.

 

Óhefðbundnar greinar vinsælar

Óhefðbundnar íþróttir hafa slegið í gegn á Unglingalandsmótinu því strandblak, pílukast og borðtennis voru mjög vinsælar. Um 1.200 þátttakendur hafa tekið þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ um helgina. Það er svipaður fjöldi og oft áður.

Unglingalandsmót UMFÍ hefur verið haldið árlega um verslunarmannahelgi víða um land frá árinu 1992. Mótið féll þó niður eins og annað fjölmennt skemmtanahald síðustu ár vegna samkomutakmarkanna.