Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð sem haldin er árlega um verslunarmannahelgina. Árið 2018 verður mótið haldið í Þorlákshöfn. Þar eru allar aðstæður til fyrirmyndar, glæsileg íþróttamannvirki og frábær aðstaða fyrir mótsgesti. 

Unglingalandsmót UMFÍ er sannkölluð fjölskylduhátíð. Boðið er upp á fjölda keppnisgreina fyrir 11 – 18 ára börn og ungmenni. Allir á þessum aldri geta skráð sig til leiks. Ekki er skilyrði að vera skráð/ur í ungmenna- eða íþróttafélag. Margt er í boði fyrir börn og fullorðna frá morgni til kvölds.

Á Unglingalandsmót UMFÍ koma þúsundir gesta ár hvert, þátttakendur og forráðamenn þeirra. Vinir og vandamenn sem vilja taka saman þátt í skemmtilegu móti.

 

Skráning og greiðsla

Skráning á Unglingalandsmót UMFÍ hófst 1. júli sl. Lokað verður fyrir skráningar á miðnætti 30. júlí. 

Mótsgjald er 7.000kr. á hvern einstakling 11 - 18 ára sem skráir sig til þátttöku. Greiða þarf gjaldið til að geta klárað skráningu. Aðrir mótsgestir greiða ekkert gjald en geta þó tekið þátt í fjölbreyttri afþreyingu og verkefnum sem boðið er upp á. Skráning og greiðsla fer í gegnum greiðsluþjónustukerfið NORA. 

 

Keppnisgreinar

Á mótinu geta þátttakendur valið úr yfir 20 ólíkum keppnisgreinum. Greinarnar eru: bogfimi, dorgveiði, fimleikalíf, fótbolti, frisbígolf, frjálsar íþróttir, glíma, golf, götuhjólreiðar, hestaíþróttir, íþróttir fatlaðra, kökuskreytingar, körfubolti, motocross, sandkastalagerð, skák, skotfimi, stafsetning, strandblak, strandhandbolti, sund og upplestur.

 

Afþreying

Eins og ævinlega er fjölbreytt dagskrá og afþreying fyrir alla mótsgesti yfir allt mótið. Börn yngri en 10 ára fá líka fjölmörg verkefni eins og foreldrarnir. Það verður líf og fjör í Þorlákshöfn frá morgni til kvölds alla mótsdagana. Hér eru nokkur sýnishorn af því sem boðið verður uppá í Þorlákshöfn: flugeldasýning, fótboltabilljard, fótboltamót barna 10 ára og yngri, fótboltapanna, fótbolti 3:3, frjálsíþróttaleikar barna, gönguferðir, kvöldvökur, tónleikar með besta tónlistarfólki landsins, ringó, sandkastalagerð, sundleikar barna, hestar teymdir undir börnum, 50m þrautabraut og margt fleira. Öll afþreying er opin og án endurgjalds. 

 

Listamenn

Fimmtudagur 2. ágúst

Kvöldvaka: DJ Dóra Júlía. 

Föstudagur 3. ágúst

Setning: Flóni. 

Kvöldvaka: Flóni - Between Mountains - Joey Christ.

Laugardagur 4. ágúst

Kvöldvaka:  Young Karin - Jói Pé og Króli - Emmsjé Gauti. 

Sunnudagur 5. ágúst

Kvöldvaka:  Mió Tríó - Herra Hnetusmjör og Kóp Bois (Joe Frazier - Huginn og DJ Egill Spegill) - Jón Jónsson.

 

Tjaldsvæði

Tjaldsvæðið er ókeypis fyrir mótsgesti og fjölskyldur þeirra en greitt er fyrir afnot af rafmagni. Tjaldsvæðið er í göngufæri við aðalkeppnissvæðið. Tjaldsvæðið opnar á hádegi fimmtudaginn 2. ágúst.

Smelltu hér til að skoða tjaldbúðarreglur og kort af svæðinu. 

 

Tapað / fundið

Öllum óskilamunum er safnað saman í þjónustumiðstöðinni sem staðsett er í grunnskólanum. 

 

Þjónusta í Þorlákshöfn

Sveitarfélagið Ölfus er vestast í Árnessýslu á suðvesturhorni landsins. Bærinn er sagður draga nafn sitt af Þorláki helga Skálholtsbiskupi (1133-1193). Reyndar fer tvennum sögum af tilkomu nafnsins. Önnur segir að staðurinn hafi fengið nafnið eftir að Þorlákur biskup steig þar á land þegar hann kom frá biskupsvígslu í Noregi árið 1178. Hin sagan segir að eigandi jarðarinnar hafi í sjávarháska heitið á Þorlák helga og gefið síðan Skálholti jörðina. Áður en þetta var hét Þorlákshöfn Elliðahöfn, að talið er.

Þorlákshöfn er frábær staður til að búa sér notalegt heimili og ala upp börn. Vinalegur og barnvænn bær í fullkominni nálægð við aðra þéttbýliskjarna – eða huggulega langt frá þeim. Skólarnir eru eitt af trompum bæjarins.  Bæði leik- og grunnskóli eru rúmgóðir og vel haldið utan um alla nemendur.

Öll íþróttaaðstaða í Þorlákshöfn er mjög góð og ákaflega vel nýtt af bæjarbúum. Ný og glæsileg íþróttamannvirki voru tekin í notkun sumarið 2008 og er stöðugt verið að bæta hana.

Aðstaða fyrir alla gesti er til fyrirmyndar í Þorlákshöfn. Smelltu þér til að kynna þér sveitarfélagið Ölfus betur. 

Sjáumst í Þorlákshöfn.