Unglingalandsmót

Unglingalandsmót UMFÍ hafa verið haldin frá árinu 1992. Mótin hafa vaxið og sannað gildi sitt sem glæsilegar fjölskyldu- og íþróttahátíðir þar sem saman koma þúsundir barna og ungmenna ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá.

Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus fjölskylduhátíð þar sem börn og ungmenni á aldrinum 11 - 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. 

Unglingalandsmótin hafa hvarvetna vakið mikla athygli og þeir fjölmörgu sem þau hafa sótt hafa verið öðrum til mikillar fyrirmyndar með allri framkomu sem er í keppni eða leik. Á Unglingalandsmóti UMFÍ koma þúsundir gesta ár hvert, þáttakendur og forráðamenn þeirra. Vinir og vandamenn sem vilja taka saman þátt í skemmtilegu móti. 

Unglingalandsmót UMFÍ fer fram um verslunarmannahelgina, 29. - 31. júlí 2022 á Selfossi í samstarfi við Héraðssambandið Skarphéðinn og Sveitarfélagið Árborg. 

Sjá viðburðinn á facebook.  

 

Skráning og greiðsla

Skráning á Unglingalandsmót UMFÍ hefst þriðjudaginn 5. júlí. Lokað verður fyrir skráningar á miðnætti 25. júlí. Nú hefur verið ákveðið að hafa opið til hádegis fimmtudagsins 28. júlí.

Þátttakendur greiða eitt þátttökugjald, 8.500 kr. óháð því hvað þeir taka þátt í mörgum keppnisgreinum. Gjaldið þarf að greiða rafrænt við skráningu á mótið. Aðeins er greitt fyrir þátttakendur 11 – 18 ára. Frítt er fyrir systkini og foreldra. 

Eftir að skráningarfresti lýkur er ekki hægt að skrá sig rafrænt né tryggja þátttöku í öllum greinum. Hins vegar munum við gera okkar besta til að allir geti tekið þátt. Þátttökugjald hækkar í 9.900 kr. og sú skráning er eingöngu gerð af starfsfólki UMFI. Sendið póst á umfi@umfi.is.

Við hvetjum þátttakendur til þess að skrá sig tímanlega. Fjöldatakmarkanir eru í nokkrum keppnisgreinum og því gildir reglan, fyrstur kemur, fyrstur fær.

 

Skráning í gegnum Sportabler

Skráning er í tveimur liðum. Fyrst er greitt þátttökugjald eftir því hvaða íþróttahéraði þátttakandi tilheyrir. Einnig er hægt að skrá sig án íþróttahéraðs/félags. Athugið að sum íþróttahéruð/félög niðurgreiða þátttökugjald að hluta eða öllu leyti fyrir þátttakendur á sínu svæði.

Smelltu HÉR til þess að greiða þátttökugjald. 

Þegar búið er að greiða þátttökugjaldið er gengið frá skráningu í einstakar greinar með því að smella HÉR.
 

Ertu ekki viss hvað íþróttahéraðið þitt heitir? 

Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar. 

Skráning í liðakeppni

Liðakeppni er í nokkrum greinum (fótbolti, körfubolti, strandhandbolti, strandblak). Við skráningu í liðakeppni þarf hver og einn að ganga frá sinni skráningu og taka fram nafn á liði í þar til gerðan reit. Ekki er hægt að ganga frá skráningu fyrir heilt lið.

Ertu ekki með full skipað lið?

Ef það eru t.d. tveir vinir sem skrá sig til leiks en vantar fleiri til þess að fullskipa liðið. Þá er heppilegast að finna nafn á liðið og skrá nafnið á liðinu. Við hjá UMFÍ munum svo gera okkar besta til að fylla upp í liðið.

Vantar þig lið?

Ef einstaklingur er ekki með lið en hefur áhuga á að vera með í liði er heppilegast að skrá sig til leiks og velja nafn á liði sem heitir "vantar lið". Við hjá UMFÍ röðum viðkomandi svo í lið.

Þátttaka í eldri aldurshópum - "keppt upp fyrir sig"

Þeir sem ætla að skrá sig upp fyrir sinn aldurflokk þurfa að senda tölvupóst um slíkt á netfangið umfi@umfi.is. Í tölvupóstinum þurfa eftirfarandi upplýsingar að koma fram: 

Fornafn, eftirnafn, kyn, fæðingardagur, kennitala, símanúmer, netfang og félag.

Varðandi hópinn / liðiði / sveitina sem viðkomandi ætlar að skrá sig í þarf eftirfarandi að koma fram:

Upplýsingar um grein, aldursflokk sem viðkomandi ætlar að keppa upp fyrir sig í og nafn á hópi / liði / sveit sem viðkomandi keppir með. 

Athugið að ekki er hægt að skrá sig upp fyrir sinn aldursflokk nema í hópnum / liðinu / sveitinni sé að minnsta kosti einn aðili á réttu aldursári.

Ef þú lendir í vandræðum er velkomið að senda tölvupóst á netfangið umfi@umfi.is eða hringja í þjónustumiðstöð UMFÍ í síma 568 2929.


Keppnisgreinar

Á mótinu geta þátttakendur valið úr fjölmörgum ólíkum keppnisgreinum. Greinarnar eru: biathlon, bogfimi, borðtennis, fimleikalíf, frisbígolf, frjálsar íþróttir, glíma, golf, götuhjólreiðar, hestaíþróttir, íþróttir fatlaðra, knattspyrna, kökuskreytingar, körfubolti, motocross, pílukast, rafíþróttir, skák, stafsetning, strandblak, strandhandbolti, sund, taekwondo og upplestur. 

 

Afþreying

Eins og ævinlega er fjölbreytt dagskrá og afþreying fyrir alla mótsgesti yfir allt mótið. Börn yngri en 10 ára fá líka fjölmörg verkefni eins og foreldrarnir. Það verður líf og fjör á Selfossi frá morgni til kvölds alla mótsdagana. Hér eru nokkur sýnishorn af því sem boðið verður uppá: Flugeldasýning, fótboltabilljard, fótboltamót barna 10 ára og yngri, fótboltapanna, frjálsíþróttaleikar barna, gönguferðir, kvöldvökur, tónleikar með besta tónlistarfólki landsins, ringó, sundleikar barna og margt fleira. Öll afþreying er opin og án endurgjalds. 

 

Listamenn

Fjöldi listafólks kemur fram í tónlistartjaldi mótsins sem staðsett verður á tjaldsvæðinu. Listafólkið er: Birnir, Bríet, Dj Dóra Júlía, Friðrik Dór, Hr. Hnetusmjör, Jón Arnór og Baldur, Jón Jónsson, Sigga Ósk og Stuðlabandið. 

 

Tjaldsvæði

Þátttakendum mótsins og fjölskyldum þeirra stendur til boða ókeypis tjaldsvæði á Selfossi sem er einungis fyrir gesti mótsins. Svæðinu er skipt niður í ákveðin hólf og merkt mismunandi íþróttahéruðum eftir landshlutum. Það er því mikilvægt að mótsgestir átti sig á hvaða sambandsaðila eða íþróttabandalagi þeir tilheyra. Ef þú ert ekki viss þá finnurðu allar upplýsingar undir flipanum íþróttahéruð

Á tjaldsvæðinu er boðið upp á aðgengi að rafmagni. Aðgangur að rafmagni kostar kr. 4.000.- fyrir helgina og er gengið frá greiðslu við komuna á tjaldsvæðið.

Snyrtingar og rennandi vatn eru á tjaldsvæðinu og eru mótsgestir beðnir að ganga vel um.

Sérstakar tjaldbúðareglur gilda á svæðinu sem má finna hér.

Tjaldsvæðið opnar um hádegi fimmtudaginn 28. júlí. Mótshaldarar minna tjaldsvæðagesti að vera með breyti- og millistykki til að tengjast rafmagninu. 

Björgunarsveitarfólk stendur vaktina á tjaldsvæðinu allan sólarhringinn til að gæta öryggis tjaldbúðagesta.

 

Tapað / fundið

Öllum óskilamunum er safnað saman í þjónustumiðstöð mótsins sem er staðsett í FSu. Óskilamunir verða þar fram til 4. ágúst. Eftir þann tíma verða þeir fluttir í þjónustumiðstöð HSK sem er til húsa í Selinu á íþróttavallarsvæðinu á Selfossi. Sími 482 1189. Netfang hsk@hsk.is.

 

Þjónusta á Selfossi

Smellið hér til að lesa ykkur til um Selfoss.  

 

Aðal samstarfsaðilar mótsins eru: