UMFÍ vonar að þú upplifir frábært Unglingalandsmót. Hér fyrir neðan er að finna svör við spurningum sem þú gætir verið að velta fyrir þér. Ef þú finnur ekki svar við þinni spurningu er velkomið að slá á þráðinn til okkar í síma 568 2929 eða senda okkur póst á netfangið umfi@umfi.is

 

Algengar spurningar

Armband

Allir þátttakendur á Unglingalandsmóti fá armband sem þeir þurfa að hafa alla mótsdagana. Yngri systkini geta einnig fengið armband.

Þegar þú kemur á Selfoss þá er það fyrsta sem þú gerir að koma við í þjónustumiðstöð mótsins og ná í armbandið þitt. Þjónustumiðstöðin er í Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSu), Tryggvagötu 25. Smelltu hér til þess að opna google.

Ef armbandið slitnar á meðan mótinu stendur þá kemur þú með það í þjónustumiðstöðina og færð nýtt armband afhent.

Börn - yngri systkini

Ert þú að velta því fyrir þér hvort yngri systkini geti komið með?

Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus fjölskyldu- og íþróttahátíð. Ungmenni á aldrinum 11 – 18 ára geta tekið þátt í íþróttagreinum mótsins. Árið gildir.

Börn yngri en 10 ára fá líka fjölmörg verkefni eins og foreldrarnir. Það verður líf og fjör á Selfossi frá morgni til kvölds alla mótsdagana. Hér eru nokkur sýnishorn af því sem boðið verður uppá: Flugeldasýning, fótboltabilljard, fótboltamót barna 10 ára og yngri, fótboltapanna, frjálsíþróttaleikar barna, gönguferðir, kvöldvökur, tónleikar með besta tónlistarfólki landsins, ringó, sundleikar barna og margt fleira. Öll afþreying er opin og án endurgjalds.

Börn í fylgd fullorðinna á mótinu greiða ekkert þátttökugjald. Ekki er gert ráð fyrir því að börn og ungmenni yngri en 18 ára séu á eigin vegum á mótinu.

 

Bílar og bílastæði

Til þess að skapa sanna landsmótsstemmingu þá verður ákveðnum götum lokað í kringum nokkra viðburði.

Við mælum með því að bílum sé lagt á tjaldsvæðunum þegar komið er á Selfoss og þeir fái að hvíla sig þar fram að brottför. Tjaldsvæðið er staðsett við Suðurhóla í útjaðri bæjarins í göngufæri við aðal keppnissvæðið.   

Covid - 19

Vegna Covid-19 eru mótsgestir hvattir til þess að huga vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti með sápu og vatni. Eins er mikilvægt að taka tillit til þeirra sem vilja virða 2ja metra fjarlægð milli fólks. 

Handspritt verður að finna við öll keppnissvæði sem og í þjónustumiðstöð mótsins.

Við hvetjum mótsgesti til þess að hala niður rakningarappi Almannavarna sem og kynna sér upplýsingar á síðunni covid.is

Eins minnum við á samfélagssáttmálann: 

 • Þvoum okkur um hendur
 • Sprittum hendur
 • Munum 2 metra fjarlægð
 • Sótthreinsum sameiginlega snertifleti
 • Verndum viðkvæma hópa
 • Hringjum í heilsugæsluna ef við fáum einkenni
 • Tökum áfram sýni
 • Virðum sóttkví
 • Virðum einangrun
 • Veitum áfram góða þjónustu
 • Miðlum traustum upplýsingum
 • Verum skilningsrík, tillitssöm, kurteis og styðjum hvert annað


Við erum öll almannavarnir – og verðum það áfram.

Sjá nánar hér.

Dagskrá

Dagskrá mótsins er afar fjölbreytt eins og sjá má hér innan tíðar. Íþróttakeppnin er í aðalhlutverki en samhliða henni eru fjölmargir viðburðir sem vert er að veita athygli.  Þetta eru viðburðir fyrir allan aldur og allir eru þeir ókeypis. Tónleikar eru öll kvöldin í stóru tjaldi á tjaldsvæðinu og síðan minni viðburðir út um allt.

Dýr

Sumir geta ekki verið án dýranna sinna.  Við hvetjum hins vegar ekki bændur til að taka með bústofna sína en minni spámenn eru velkomnir. Við hvetjum t.d. hundaeigendur til þess að hafa þá ætíð í bandi. Hundar eru ekki leyfðir á aðalíþróttasvæði Selfossvallar.

Ferðatilhögun

Það er einfalt mál að keyra á Selfoss en það er líka hægt að taka strætó.

Það eru 56 km frá Reykjavík, 94 km frá Reykjanesbæ, 115 km frá Borgarnesi, 476  km frá Ísafirði, 333 km frá Sauðárkróki, 429 km frá Akureyri, 504 km frá Húsavík, 646 km frá Egilsstöðum, 401 km frá Höfn í Hornafirði og 93 km frá Vestmannaeyjum.

Gisting

 Við hvetjum mótsgesti til að gista á tjaldsvæði mótsins sem staðsett er við Suðurhóla á Selfossi sem útbúið er sérstaklega fyrir Unglingalandsmótið. Auk þess bendum við á tjaldsvæði, gistiheimili og hótel á svæðinu. Best er að fara á https://www.south.is/is til að finna gistingu á svæðinu.

Hraðbanki

Nokkra hraðbanka er að finna á Selfossi. Landsbankinn er með þrjá. Einn í útibúi Landsbankans á Austurvegi 20, annar er staðsettur inn í Krambúðinni, Tryggvagötu 40 og sá þriðji er staðsettur í verslunarmiðstöðinni Kjarnanum, Austurvegi 3-5.

Hraðbanki Arion banka er staðsettur í útibúi bankans að Austurvegi 10 og hraðbanki Íslandsbanka er staðsettur í útibúi bankans að Austurvegi 9.

Allir hraðbankarnir á Selfossi eru opnir á afgreiðslutíma nema hraðbanki Íslandsbanka sem er opinn allan sólarhringinn.

Íþróttahéruð

Það getur verið ruglingslegt og flókið að skilja allt tal um íþróttahérað, sambandsaðila og félög.

UMFÍ er landssamband fyrir íþrótta- og ungmennafélög um allt land.  Þau geta átt aðild að UMFÍ í gegnum sitt íþróttahérað eða með beinni aðild.

Alls eru um 450 félög innan UMFÍ í gegnum 21 íþróttahérað og sjö félög með beina aðild. 

Dæmi:

Jón býr í Reykjavík og æfir körfubolta með Val. Íþróttafélagið Valur er félag undir Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR) sem er sambandsaðili UMFÍ. Jón tilheyrir því ÍBR á Unglingalandsmótinu.

Gunna æfir sund með sunddeild Skallagríms. Skallagrímur er aðildarfélag Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB), sem er sambandsaðili UMFÍ. Gunna tilheyrir því UMSB á mótinu. 

 

Hvaða sambandsaðila tilheyrir þú?

Hér er að finna lista yfir landshluta, íþróttahéruð og félög  með beina aðild.

 

Höfuðborgarsvæðið
UMSK – Ungmennasamband Kjalarnesþings
UV – Ungmennafélagið Víkverji
V – Ungmennafélagið Vesturhlíð
ÍBR – Íþróttabandalag Reykjavíkur

 

Vesturland
HSH – Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu
UDN – Ungmennasamband Dalamanna og N Breiðfirðinga
UMSB – Ungmennasamband Borgarfjarðar
USAH – Ungmennasamband Austur Húnvetninga
USVH – Ungmennasamband Vestur Húnvetninga
ÍA – Íþróttabandalag Akraness

 

Vestfirðir
HSS – Héraðssamband Strandamanna
HHF – Héraðssambandið Hrafnaflóki
HSB- Héraðssamband Bolungarvíkur
HSV – Héraðssamband Vestfirðinga

 

Norðurland
HSÞ – Héraðssamband Þingeyinga
UÍF – Ungmanna- og Íþróttasamband Fjallabyggðar
UMSE – Ungmennasamband Eyjafjarðar
UMSS – Ungmennasamband Skagafjarðar
ÍBA – Íþróttabandalag Akureyrar

 

Austurland
UÍA – Ungmenna- og Íþróttasamband Austurlands

 

Suðurland
HSK – Héraðssambandið Skarphéðinn
USÚ – Ungmennasambandið Úlfljótur
USVS – Ungmennasamband Vestur Skaftafellssýslu
UMFÓ – Ungmennafélagið Óðinn

 

Suðurnes
Keflavík Íþrótta og ungmennafélag
UMFG – Ungmennafélag Grindavíkur
UMFN – Ungmennafélag Njarðvíkur
UMFÞ – Ungmennafélagið Þróttur

Matur og veitingar

Veitingastaðir og sölutjöld verða um allan bæ. Góðar matvöruverslanir eru einnig á Selfossi þannig að þá má alltaf fá eitthvað gott til að skella á grillið.

Mótshaldarar

Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi 2020 er samstarfsverkefni UMFÍ, HSK og Sveitarfélagsins Árborgar.

Ungmennafélag Íslands - UMFÍ er landssamband ungmennafélaga. UMFÍ var stofnað í ágúst árið 1907. Sambandsaðilar UMFÍ eru 28 talsins og skiptast í 21 íþróttahérað og 7 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 460 félög innan UMFÍ með rúmlega 300 þúsund félagsmenn.

HSK, Héraðssambandið Skarphéðinn er íþróttahérað og einn af sambandsaðilum UMFÍ. Innan HSK eru 59 aðildarfélög. Sveitarfélagið Árborg varð til við sameiningu Eyrarbakkahrepps, Sandvíkurhrepps, Selfossbæjar og Stokkseyrarhrepps í febrúar 1998 og er stærsta sveitarfélag á Suðurlandi. Íbúafjöldi Árborgar telur rúmlega 10.000 íbúa.  

Mótssetning

Formleg mótssetning verður á Selfossvelli á föstudagskvöldinu og hefst kl. 20:00. Í upphafi setningarinnar ganga allir keppendur inn á svæðið í röð, hver með sínum „liði”. Þátttakendum er raðað niður eftir íþróttahéruðum og landssvæðum við inngönguna. Það er mikilvægt að allir keppendur mæti á mótssetninguna.

 

Ertu ekki viss hvaða íþróttahéraði þú tilheyrir?

Kíktu á flipan íþróttahéruð til þess að fá allar upplýsingar. 

Mótsslit

Mótinu er formlega slitið á Selfossvelli á sunnudagskvöldi.  Að lokinni kvöldvöku í stóra tjaldinu sem verður á tjaldsvæðinu verður gengið inn á Selfossvöll þar sem mótsslitin fara fram. Lokaatriðið er heljarinnar flott flugeldasýning.

Óskilamunir

Óskilamunum verður safnað saman í þjónustumiðstöð mótsins sem er staðsett í FSu. Þar verða þeir fram til 4. ágúst. Eftir þann tíma verða þeir fluttir í þjónustumiðstöð HSK sem er til húsa í Selinu á íþróttavallarsvæðinu á Selfossi. Sími 482 1189. Netfang hsk@hsk.is.

Ruslafötur

Það verður fjöldi ruslatunna um allt mótssvæðið. Hjálpaðu okkur að halda svæðinu snyrtilegu og henda rusli í tunnurnar. Umgengni sýnir innri mann er gott máltæki sem mótsgestir ættu að temja sér.

Salerni

Salerni eru á tjaldsvæðinu. Þau eru einnig að finna í íþróttamannvirkjum og á keppnisstöðum mótsins. Svo eru þau að sjálfsögðu á veitingastöðum og í verslunum um allan bæ.

Skráning og greiðsla

Skráning á Unglingalandsmót UMFÍ hefst 1. júlí. Lokað verður fyrir skráningar á miðnætti 25. júlí. 

Þátttakendur greiða eitt þátttökugjald, 7.900 kr. óháð því hvað þeir taka þátt í mörgum keppnisgreinum. Gjaldið þarf að greiða rafrænt við skráningu á mótið. Aðeins er greitt fyrir þátttakendur 11 – 18 ára. Frítt er fyrir systkini og foreldra. 

Eftir að skráningarfresti lýkur er ekki hægt að skrá sig rafrænt né tryggja þátttöku í öllum greinum. Hins vegar munum við gera okkar besta til að allir geti tekið þátt. Þátttökugjald hækkar í 8.900 kr. og sú skráning er eingöngu gerð af starfsfólki UMFI. Sendið póst á umfi@umfi.is.

Við hvetjum þátttakendur til þess að skrá sig tímanlega. Fjöldatakmarkanir eru í nokkrum keppnisgreinum og því gildir reglan, fyrstur kemur, fyrstur fær.

 

Skráning í gegnum Nora:

Í fyrsta skrefi þarf forráðamaður að skrá sig inn á slóðinni hér með rafrænum skilríkjum.

Þegar komið er inn á síðuna þarf að fylla út praktískar upplýsingar eins og netfang, símanúmer o.fl. ásamt því að tengja börn við forráðamenn.

Þegar því er lokið er farið í sjálfa skráninguna á viðburðinn.

Fyrst er gengið frá skráningu á þátttökugjaldi. Það er gert með því að ýta á hnappinn sem heitir skráning í boði. Þar eru fylltar út upplýsingar um kortanúmer til þess að ganga frá greiðslu. Þegar því er lokið er valið að fara í mótaskráningu og þar er hægt að skrá sig í eina eða margar greinar á mótinu.

 

Skráning í liðakeppni:

Liðakeppni er í nokkrum greinum (fótbolti, körfubolti, strandhandbolti, strandblak). Við skráningu í liðakeppni þarf hver og einn að ganga frá sinni skráningu og taka fram nafn á liði í þar til gerðan reit. Ekki er hægt að ganga frá skráningu fyrir heilt lið.

 

Ertu ekki með full skipað lið?

Ef það eru t.d. tveir vinir sem skrá sig til leiks en vantar fleiri til þess að fullskipa liðið. Þá er heppilegast að finna nafn á liðið og skrá nafnið á liðinu. Við hjá UMFÍ munum svo gera okkar besta til að fylla upp í liðið. 

 

Vantar þig lið?

Ef einstaklingur er ekki með lið en hefur áhuga á að vera með í liði er heppilegast að skrá sig til leiks og velja nafn á liði sem heitir "vantar lið". Við hjá UMFÍ röðum viðkomandi svo í lið.

 

Til þess að ljúka skráningu er valið félag sem þátttakandi tekur þátt fyrir. 

Hægt er að bæta við fleiri greinum síðar í skráningakerfinu. 

Sturtuaðstaða

Á Suðurlandi er að finna fjöldann allan af sundlaugum. Á Selfossi er að finna Sundhöll Selfoss. Laugin er staðsett í miðbæjarkjarnanum sem er í göngufæri frá helstu verslunum og þjónustu. Einnig er að finna sundlaugar í Hveragerði, Þorlákshöfn, Stokkseyri og Borg í Grímsnesi svo eitthvað sé nefnt. Á öllum þessum stöðum er gott að slaka á og njóta og fara í góða heita sturtu. Nánari upplýsingar má finna á vefnum sundlaugar.is.

Sjálfboðaliðar

Það eru ótrúlega margar hendur sem koma að undirbúningi og framkvæmd Unglingalandsmótsins. Það eru miklar líkur á því að það verði sjálfboðaliði sem þú mætir í hinum ýmsu hlutverkum á mótinu. Sendu þeim bros og þakklæti fyrir að leggja sitt af mörkum við að gera mótið þitt að ánægjulegri upplifun.

Slys og meiðsli

Fyrir minni meiðsli er hægt að finna sjúkrakassa með plástrum og þess háttar í Þjónustumiðstöð mótsins.

Ef meiðsli eru alvarleg skal hringja í 112.

Á Selfossi er að finna þrjú apótek. Lyfja er staðsett á Austurvegi 44. Sími 482 3000, Apótekarinn er staðsett á Austurvegi 3. Sími 482 2347 og Apótek Suðurlands er staðsett á Austurvegi 26. Sími 482 1182.

Tjaldsvæði

Þátttakendum mótsins og fjölskyldum þeirra stendur til boða ókeypis tjaldsvæði á Selfossi sem er einungis fyrir gesti mótsins. Svæðinu er skipt niður í ákveðin hólf og merkt mismunandi íþróttahéruðum eftir landshlutum. Það er því mikilvægt að mótsgestir átti sig á hvaða sambandsaðila eða íþróttabandalagi þeir tilheyra. Ef þú ert ekki viss þá finnurðu allar upplýsingar undir flipanum íþróttahéruð

Á tjaldsvæðinu er boðið upp á aðgengi að rafmagni. Aðgangur að rafmagni kostar kr. 4.000.- fyrir helgina og er gengið frá greiðslu við komuna á tjaldsvæðið.

Snyrtingar og rennandi vatn eru á tjaldsvæðinu og eru mótsgestir beðnir að ganga vel um.

Sérstakar tjaldbúðareglur gilda á svæðinu sem má finna HÉR.

Tjaldsvæðið opnar um hádegi fimmtudaginn 30. júlí. Mótshaldarar minna tjaldsvæðagesti að vera með breyti- og millistykki til að tengjast rafmagninu. 

Björgunarsveitarfólk stendur vaktina á tjaldsvæðinu allan sólarhringinn til að gæta öryggis tjaldbúðagesta.

Tónleikar

Eftir að hafa stundað íþróttir allan daginn er frábært tækifæri að taka fram dansskóna og skemmta sér á kvöldin með gömlum og nýjum vinum. Á tjaldsvæðinu verður að finna risastórt tjald þar sem flottir listamenn koma til með að halda uppi stuði og stemningu. Upplýsingar um listamenn og dagskrá koma innan tíðar.

Tryggingar

Vakin er athygli á því að allir þátttakendur á Unglingalandsmóts UMFÍ eru á eigin ábyrgð. Nú er því rétti tíminn til að leita að tryggingaplagginu og fara yfir skilmálana áður en mætt er á mótið til að tryggja að allt sé eins og það á að vera.

Veðrið

Við fylgjumst náið með veðurspánni. Ef ástæða þykir til getum við þurft að færa til viðburði eða breyta tímasetningum á þeim. Munið að pakka í samráði við veðurspána.

Við höfum hins vegar pantað gott veður alla mótsdagana svo nú er bara að bíða og vona.

Þátttaka og keppnisfyrirkomulag

Allir sem eru 11 - 18 ára á árinu geta skráð sig til keppni á mótinu. Þú þarft ekki að vera í íþrótta- eða ungmennafélagi til þess að geta tekið þátt, allir geta verið með.

Fjöldi keppnisgreina er í boði og allir ættu því að finna keppnisgrein við sitt hæfi. Það er mikilvægt að keppendur taki þátt á sínum forsendum og hafi gleðina í fyrsta sæti. Vissulega hafa allar keppnisgreinarnar sínar reglur sem allir þurfa að virða og fara eftir. 

Keppendur geta tekið þátt í eins mörgum greinum og þeir treysta sér til. Mikilvægt er samt að skoða tímasetningar vel því einhverjar keppnisgreinar eru á sama tíma. Það er líka mjög mikilvægt að mæta til keppni ef búið er að skrá sig í ákveðna grein.

Veitt eru verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin í öllum greinum, gull, silfur og brons.

 

Geta allir tekið þátt í öllum greinum?

Já, allir geta tekið þátt í öllum greinum. Hins vegar er það alveg ljóst að enginn getur keppt í öllum greinum mótsins. Þær eru of margar og einhverjar fara fram á sama tíma.

Að þessu sögðu þá er bara eitt keppnisgjald og þeir sem það greiða geta valið sér keppnisgreinar að vild.

 

Hvernig virkar liðakeppni?

Liðakeppni er í nokkrum greinum. Við skráningu í liðakeppni þarf hver og einn að ganga frá sinni skráningu og taka fram nafn á liði. Ekki er hægt að ganga frá skráningu fyrir heilt lið.  

Ertu ekki með full skipað lið?

Ef það eru t.d. tveir vinir sem skrá sig til leiks en vantar fleiri til þess að fullskipa liðið. Þá er heppilegast að finna nafn á liðið og skrá nafnið á liðinu. Við hjá UMFÍ munum svo sjá um að koma viðkomandi saman í lið. 

Vantar þig lið?

Ef einstaklingur hefur áhuga á að vera með í liði er heppilegast að skrá sig til leiks og skrifa inn "vantar lið" við liðskráninguna. Við hjá UMFÍ röðum viðkomandi svo í lið.

Skoðaðu allar upplýsingar um hverja keppnisgrein hérna.

Þjónustumiðstöð

Þjónustumiðstöð mótsins verður staðsett í Fjölbrautarskóla Suðurlands (FSu).

Mótsstjórnin er opin alla mótsdagana og þar er hægt að fá upplýsingar um allt er varðar mótið og mótahaldið.

Í mótsstjórn fá keppendur afhent armbönd sem er forsenda fyrir þátttöku í keppninni. Án armbands getur enginn keppt. Yngri systkini geta einnig fengið armband.

Ef armbandið slitnar á meðan mótinu stendur þá kemur þú með það í þjónustumiðstöðina og færð nýtt armband afhent.

Öryggi

Fulltrúar úr Björgunarfélagi Árborgar sjá um gæslu á svæðinu og gera sitt til að tryggja öryggi mótsgesta. Við erum aftur á móti öll Almannavarnir og því eru mótsgestir hvattir til þess að sýna náungakærleik og leiðbeina þeim sem misstíga sig í samskiptum eða framkomu við aðra.

Vegna Covid-19 eru mótsgestir hvattir til þess að huga vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti með sápu og vatni. Eins er mikilvægt að taka tillit til þeirra sem vilja virða 2ja metra fjarlægð milli fólks.